Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur undirritað löggjöf um innlimun fjögurra úkraínskra héraða í Rússland, að því er kemur fram í skjölum sem birt hafa verið af rússnesku ríkisstjórninni.
Héruðin Dónetsk, Lúgansk, Kerson og Sapírísía eru „viðurkennd sem hluti af Rússlandi í samræmi við rússnesku stjórnarskrána,“ segir í skjölunum.
Lögin voru undirrituð á sama tíma og úkraínskar hersveitir hafa sótt hart fram í Kerson, í suðurhluta Úkraínu, og hafa rússneskar hersveitir þurft að hörfa þaðan í auknum mæli, að sögn BBC.
Eitt þeirra þorpa sem úkraínskar hersveitir hafa endurheimt er þorpið Davydiv Brid, sem er hernaðarlega mikilvægt.
Rússar hafa þegar þurft að hörfa í norðausturhluta Úkraínu.
Innlimun héraðanna fjögurra er ólögleg samkvæmt alþjóðalögum og Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hefur lýst því yfir að hún hafi ekkert gildi.