Yfirvöld í Svíþjóð neita því að fjórar rússneskar herþotur hafi rofið sænska lofthelgi fyrr í dag.
Ítalski flugherinn greindi frá því í tísti að herþoturnar hefðu rofið pólska og síðan sænska lofthelgi.
Bætti hann um betur og kvaðst hafa rekið þoturnar aftur inn í loftrými Kalíníngrad, svæðis undir stjórn Rússa sem liggur á milli Póllands og Litháens.
#Scramble, nuovo decollo immediato per gli #Eurofighter italiani impegnati in attività di Air Policing in Polonia per intercettare 4 caccia russi che avevano interessato gli spazi aerei polacco e svedese prima di essere costretti a rientrare nello spazio aereo di Kaliningrad pic.twitter.com/xY6b3YA4YI
— Aeronautica Militare (@ItalianAirForce) October 5, 2022
Í svari við fyrirspurn Aftonbladet segir sænski herinn aftur á móti að ekkert rof hafi orðið á flughelgi landsins í dag.
„Þær voru yfir alþjóðlegu hafsvæði,“ segir í svarinu.
Sú var þó ekki raunin fyrr á árinu, þegar rússneskar þotur flugu inn fyrir sænska lofthelgi með kjarnaodda um borð.