Mótmælendur á vegum samtakanna Greenpeace stóðu upp undir ræðu breska forsætisráðherrans Liz Truss, á ráðstefnu Íhaldsflokksins í morgun, og sökuðu hana um að fara á bak kosningaloforða flokksins.
Konurnar, þær Rebecca Newsom og Ami McCarthy, risu úr sætum sínum með borða sem á stóð: „Hver kaus þetta?“.
Var þeim skjótt vikið úr salnum við lófaklapp og fögnuð annarra ráðstefnugesta.
Newsom segir í tilkynningu eftir mótmælin að Truss hafi farið með megnið af kosningaloforðum Íhaldsmanna frá árinu 2019 „í gegnum tætararann“.
„Fólk kaus strangar aðgerðir í loftslagsmálum, bann gegn bergbroti fyrir olíu (e. fracking), leiðandi umhverfisverndaraðgerðir og að ráðist yrði gegn fátækt og ójöfnuði,“ segir hún.
„Það sem það fær í staðinn er bergbrot, mögulegan bálköst reistan úr reglum um dýralíf og náttúruvernd, og nú hillir undir niðurskurð bóta.“
Greenpeace og fleiri hafa þrýst á ríkisstjórnina um að leggja nýjan skatt á hagnað orkufyrirtækja en gróði þeirra hefur stóraukist vegna hækkandi heildsöluverðs á olíu og gasi.
Truss, sem áður starfaði fyrir olíu- og gasrisann Shell, svaraði fyrir sig um leið og mótmælendunum hafði verið vikið úr salnum.
„Þau vilja frekar mótmæla en aðhafast,“ sagði hún. „Þau kjósa að tala á Twitter frekar en að taka erfiðar ákvarðanir.“
Ráðherrann Suella Braverman, sem er yfir lögreglumálum í landinu, hét því í gær að ljá lögregluþjónum meira vald til að ráðast gegn truflandi mótmælum.