Nítján ára gamall maður, annað fórnarlamba skotárásar í Saltskog í bænum Södertälje í Svíþjóð fyrr í kvöld, var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi nú fyrir skömmu, en þangað hafði hann verið fluttur með þyrlu.
Hinn liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi að sögn lögreglu en eftir því sem Aftonbladet skrifar er sá 16 ára gamall.
Að þeim meðtöldum sem nú lést hafa þrír látist af skotsárum þar í bænum í fimm skotárásum á innan við tveimur vikum en jafnframt er dauðsfall hans það sjötta af þeim völdum þar síðan í febrúar.
Að sögn sænska ríkisútvarpsins SVT eru íbúar bæjarins með böggum hildar og kveður Helena Boman Brodie fréttamaður, sem er á vettvangi, marga hafa ámálgað það við hana að þeir hyggi nú á búferlaflutninga, ekki sé við þetta ógnarástand búandi.