Tveir látnir eftir árásir á borgina Saporisjía

Úkraínskir hermenn í Dónetsk-héraði í gær.
Úkraínskir hermenn í Dónetsk-héraði í gær. AFP/Anatólí Stepanov

Að minnsta kosti tveir eru látnir eftir eldflaugaárásir Rússa á borgina Saporisjía í suðurhluta Úkraínu snemma í morgun. „Ein kona lést. Annar dó í sjúkrabíl,“ skrifaði héraðsstjórinn Oleksandr Starúk á Telegram.

„Að minnsta kosti fimm manns eru grafnir undir rústum bygginga. Mörgum hefur verið bjargað, þar á meðal þriggja ára stúlku,“ skrifaði hann og bætti við að björgunarstarf sé í fullum gangi.

Starúk hvatti fólk til að fara varlega og sagði að það væru „miklar líkur á fleiri eldflaugaárásum“.

Úkraínsk yfirvöld segja að sjö rússneskum eldflaugum hafi verið skotið á Saporisjía í morgun, þar á meðal á íbúðabyggingar. Fregnir hafa borist af eldsvoðum og umtalsverðri eyðileggingu. 

Miklar sprengingar heyrðust í borginni skömmu fyrir dagrenningu, að því er BBC greindi frá. 

Árásirnar voru gerðar á sama tíma og úkraínskir hermenn hafa náð miklum árangri á víglínum bæði í austur- og suðurhluta Úkraínu í bardögum við Rússa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert