Ekki eins nálægt kjarnorkustríði síðan í Kúbudeilu

Joe Biden Bandaríkjfaorseti í gær.
Joe Biden Bandaríkjfaorseti í gær. AFP/Mandel Ngan

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að heimurinn hafi ekki verið jafnnálægt kjarnorkustríði síðan í Kúbudeilunni árið 1962. Hann varar við því að Vladimír Pútín Rússlandsforseti gæti beitt kjarnorkuvopnum, en rússneskar hersveitir hafa þurft að hörfa vegna öflugrar gagnsóknar Úkraínumanna að undanförnu.

Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir átta mánuðum hefur Pútín talað nokkuð opinskátt um notkun kjarnorkuvopna ef honum fyndist hann ekki eiga annarra kosta völ við að sölsa undir sig stór landsvæði í Úkraínu. Rússlandsher hefur mætt mikilli mótstöðu Úkraínuhers, sem er studdur af Vesturlöndum.

Pútín Rússlandsforseti í gær.
Pútín Rússlandsforseti í gær. AFP/Gavriil Grigorov/Sputnik

„Við höfum ekki staðið frammi fyrir möguleikanum á Harmagedón frá tímum Kennedy og Kúbudeilunnar“ árið 1962, sagði Biden í New York í gær.

Hann bætti við að bandarísk stjórnvöld séu að reyna að átta sig á því hvað gæti orðið til þess að Pútín léti til skarar skríða.

Ekkert grín hjá Pútín 

Sérfræðingar segja að ef kjarnorkuárás verður að veruleika verður hún líklega tiltölulega lítil í sniðum. Biden varaði engu að síður við því að jafnvel taktísk árás á afmörkuðu svæði gæti leitt til víðtækari átaka.

Pútín er „ekki að grínast þegar hann talar um möguleikann á því að nota taktísk kjarnorkuvopn eða sýkla- eða efnavopn, vegna þess að herinn hans er að standa sig undir væntingum,“ sagði hann.

Selenskí Úkraínuforseti.
Selenskí Úkraínuforseti. AFP

Úkraínumenn segjast hafa náð auknu landsvæði í héraðinu Kerson, sem grefur undan þeim fullyrðingum rússneskra stjórnvalda um að þau hafi innlimað um 20 prósent af Úkraínu.

„Meira en 500 ferkílómetrar hafa verið frelsaðir frá Rússum bara í Kerson-héraði“ síðan í byrjun október, sagði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti í ávarpi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert