Hvetur Rússa til að leggja niður vopn

Oleksii Reznikov.
Oleksii Reznikov. AFP/Martin Sylvest/Ritzau Scanpix

Oleksii Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, hefur hvatt rússneskar hersveitir til að leggja niður vopn sín.

„Þið getið enn komið í veg fyrir harm í Rússlandi og niðurlægingu rússneska hersins,“ sagði Reznikov á rússnesku í myndbandi sem var beint til rússneskra hersveita.

Rússneskir hermenn hafa átt undir högg að sækja bæði í suðri og austri að undanförnu vegna öflugrar gagnsóknar Úkraínumanna.

„Við tryggjum líf, öryggi og réttlæti undir eins fyrir alla þá sem neita að berjast. Við munum tryggja stríðsglæpadómstól fyrir þá sem gáfu glæpsamlegar skipanir,“ lofaði hann.

„Þið hafið verið blekktir og sviknir“ af Kremlin, bætti Reznikov við.

Úkraínskur hermaður á gangi í bænum Líman í Dónetsk-héraði sem …
Úkraínskur hermaður á gangi í bænum Líman í Dónetsk-héraði sem Úkraínumenn hafa endurheimt. AFP/Yasuyoshi Chiba

„Það er auðvelt fyrir þá að segja ykkur að þið hafið dáið á hetjulegan hátt í baráttu gegn ímynduðum NATO-óvini. Það er satt að þjóðir NATO eru að útvega okkur vopn. En það eru úkraínskir hermenn sem eru að vinna ykkur með þessum vopnum,“ sagði hann.

Reznikov hélt áfram og sagði að „úkraínskir hermenn þurfa ekki rússneskt landsvæði, við höfum nóg af því sjálf. Og við erum að taka þau öll aftur til baka“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert