Talið er að ástralskur maður, sem hafði verið úrskurðaður látinn, hafi verið á lífi er hann var sendur í líkhús. Daginn eftir að maðurinn fór í líkhúsið tók læknir eftir því að augu mannsins, sem áður voru lokuð, voru nú opin.
Einnig hafði verið átt við rennilásinn á líkpokanum og nýtt blóð fannst á fötum mannsins.
Dómstóll dánardómstjóra staðfestir að rannsókn sé hafin á málinu. Sjúklingurinn, sem lá á líknardeild á Rockingham-spítala í Vestur-Ástralíu, hét Kevin Reid og var 55 ára, að því er Telegraph greinir frá.
Starfsfólk spítalans úrskurðaði Reid látinn 5. september og tilkynnti aðstandendum hans um andlátið. Aftur á móti var dánarvottorð ekki gefið út samdægurs.
Degi síðar fann læknir merki um að Reid hefði mögulega verið á lífi í líkhúsinu.
Í umfjöllun ástralska miðilsins Business News segir að starfsfólk spítalans hafi látið lækninn vita að lík Reids hefði verið í hvíldarstöðu, með lokuð augun og í hreinum fötum er hann var fluttur í líkhúsið.
En læknirinn uppgötvaði líkið í allt öðru ástandi, með opin augun, í annarri stöðu og í blóðugum fötum.
Læknirinn gaf út dánarvottorð 6. september, degi eftir meint andlát Reid. En samkvæmt áströlskum miðlum var hann síðar beðinn um að færa dagsetninguna til baka um einn dag. Grunur vaknaði þá hjá lækninum um að ekki væri allt með felldu og tilkynnti hann atvikið til dánardómstjóra.
Stjórnarandstaðan í Vestur-Ástralíu segir atvikið varpa ljósi á alvarlega stöðu innan heilbrigðiskerfisins.
Spítalinn neitar því að Reid hafi verið sendur í líkhús lifandi. Paul Forden, forstjóri spítalans, heldur því fram að mannslíkaminn geti hreyfst eftir andlát. „Ég hef talað við réttarmeinafræðinga og reynslumikla lækna,“ segir Forden.
Atvik sem þessi eru sjaldgæf en eiga sér þó stað stöku sinnum. Fyrir tveimur árum var bandarísk kona úrskurðuð látin af bráðaliðum, en er starfsmenn hugðust færa líkið til brennslu kom í ljós að konan var enn á lífi.