Lögreglan í Úkraínu hefur fundið lík 534 almennra borgara á svæðinu sem úkraínski herinn hefur náð úr höndum Rússa frá því í byrjun september. Serhí Bolvínov, aðstoðarlögreglustjóri í Karkív-héraði, sagði á blaðamannafundi að þar á meðal væru lík 226 kvenna og 19 barna.
Flest fundust líkin, 447, í fjöldagröf við borgina Ísjúm. Jón Gauti Jóhannesson, fréttaritari Morgunblaðsins, var ásamt Oksönu Jóhannesson ljósmyndara í Ísjúm og fór að fjöldagröfinni. Frásögn þeirra birtist í máli og myndum í Sunnudagsblaðinu, sem fylgir Morgunblaðinu í dag.
Lögregla kveðst hafa fundið 22 staði sem grunur leiki á að hafi verið notaðir til pyntinga í Karkív-héraði. Í greininni er lýsing á heimsókn í fylgd lögreglu í pyntingarklefa í lögreglustöð í borginni Ísjúm: „Barefli og gasgrímur voru mikið notaðar, gasgrímurnar til að kalla fram köfnunareinkenni þegar fórnarlömb anda títt undir barsmíðum. Einnig bera fórnarlömb því vitni að raflost hafi verið algeng pyntingaraðferð hjá hernámsyfirvöldum.“
Í furuskógi skammt frá borginni komu Jón Gauti og Oksana að fjöldagröf þar sem almannavarnir Úkraínu voru að grafa upp lík. Þau spurðu yfirmann lögreglunnar á svæðinu hvaða sjón hefði verið erfiðust í uppgreftrinum: „Við opnuðum gröf í gær. Það voru einungis líkamshlutar þar. Fótur af kornabarni er það hryllilegasta sem ég hef séð til þessa.“
Arkady Rzegocki, yfirmaður pólsku utanríkisþjónustunnar, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að það sé mjög brýnt að samstaða vesturveldanna haldi og að Rússar séu áfram beittir þrýstingi því það sé allsherjarstríð í gangi gegn fólki, gegn börnum og óbreyttum borgurum, og enginn geti samþykkt slíkt á 21. öld. 18, 24 og 26