Neyðarástand í New York vegna fjölda hælisleitenda

Hvern dag berast fimm til sex rútur fullar af flóttafólki …
Hvern dag berast fimm til sex rútur fullar af flóttafólki inn til borgarinnar. AFP

Borgarstjórinn í New York, Eric Adams, hefur lýst yfir neyðarástandi vegna flóttamannastraums sem legið hefur inn til borgarinnar að undanförnu. 

Fleiri en 17 þúsund flóttamenn hafa flutt til borgarinnar síðan í apríl.

Ríki í Bandaríkjunum þar sem Repúblikanaflokkurinn er við völd, á borð við Texas, Arizona og Flórída, hafa tekið upp á því að senda flóttafólk yfir til ríkja sem eru undir stjórn Demókrata. 

Fimm til sex rútur á dag

Fordæmalaus fjöldi hefur komið að landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó síðustu mánuði.

Frá því í september hafa að meðaltali komið fimm til sex rútur á dag, fullar af fólki, inn til New York-borgar, í leit að hæli. 

Að sögn Adams er einn af hverjum fimm þessara einstaklinga nú þegar með stöðu hælisleitanda í Bandaríkjunum. 

Þessi straumur fólks mun koma til með að kosta borgina einn milljarð bandaríkjadala, eða 144 milljarða íslenskra króna. Borgarstjórinn kallar eftir því að ríkið stigi inn í með sérstökum fjárframlögum vegna þessa. 

„Íbúar eru reiðir, ég er líka reiður. Við báðum ekki um þetta. Það var aldrei gert neitt samkomulag um að við myndum taka það á okkur að standa undir þúsundum hælisleitenda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert