Forseti norska skáksambandsins, Joachim Birger Nilsen, hefur sagt af sér. Hann gerðist sekur um svindl á háttskrifuðu móti sem fram fór á netinu, Pro Chess League.
Tefldi hann þá í liði með Magnus Carlsen heimsmeistara í mótinu, sem fór fram á árunum 2016 til 2017.
Nilsen, sem státar af alþjóðlegum meistaratitli, viðurkenndi brotið eftir að norska ríkissjónvarpinu (NRK) var gert kunnugt um svindlið, að því er fram kemur á vefnum Chess.com.
Viðurkenndi Nilsen í gær í samtali NRK að hafa fengið hjálp frá utanaðkomandi aðila, sem var staðsettur í öðru herbergi, á meðan á mótinu stóð.
Chess.com grunaði Nilsen um svindl á þeim tíma en forsvarsfólk síðunnar segist ekki hafa haft nóg í höndunum til þess að setja ásakanirnar fram.
Þó sendi Chess.com tölvupóst á stórmeistarann og liðsstjórann Jon Ludvig Hammer og tjáði honum að Nilsen hefði svindlað, en Nilsen neitaði þá ásökunum.