Sjö eru látnir eftir sprengingu sem varð á bensínstöð við Creeslough á Írlandi. Eftir linnulausa leit, sem er hvergi nærri lokið, hafa átta til viðbótar verið fluttir á sjúkrahús.
Sjúkrahúsið í grenndinni, Letterkenny háskólasjúkrahús, hefur lýst yfir neyðarástandi og heilbrigðisyfirvöld biðja fólk að halda sig frá bráðamóttökunni nema í algerri neyð.
Michael Martin, pólitískur leiðtogi Írlands, segir að hugsað sé til og beðið sé fyrir þeim sem létu lífið eða slösuðust í sprengingunni.
„Fólkið í landinu verður máttvana vegna þessa áfalls og hörmungar,“ sagði hann meðal annars í yfirlýsingu sinni. Þá þakkaði hann jafnframt viðbragðsaðilum fyrir þá þrotlausu vinnu sem þeir inna af hendi um þessar mundir.
Orsök sprenginarinnar er ekki ljós, en lögregla telur þó líklegast að gasleki hafi valdið henni.