Dularfullt bréf barst nýlega til höfuðstöðva alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA. Sendandi bréfsins er óþekktur en skrifstofur viðkomandi eru skráðar á Íslandi.
Bréfið er undirritað af samtökum sem kalla sig „Óritskoðuð Danmörk.“ Í bréfinu segir að samtökin séu mannréttindasamtök. Skora þau á FIFA að leyfa dómurum á komandi heimsmeistaramóti í fótbolta, að bera armbönd með orðunum „Bindum endi á kynþáttafordóma í Danmörku“.
Í bréfinu stendur að stöðva verði innflytjendastefnu Danmerkur sem litist af kynþáttafordómum. Forseti FIFA, Gianni Infantino, verði að nota heimsmeistaramótið til þess að að vekja heimsbyggðina til vitundar um þann vanda sem sé til staðar á Norðurlöndunum.
Í bréfinu er skipuleggjendum heimsmeistaramótsins í Katar þakkað sérstaklega fyrir vel unnin störf.
Bréfið má sjá í heild sinni hér að neðan en NRK greinir frá málinu. Bréfið hefur vakið mikla athygli í Danmörku og veltir fólk því fyrst og fremst fyrir sér hver sé á bak við bréfið.
Samtökin halda úti vefsíðu þar sem allt efni er á ensku, en þar má finna ýmsar greinar um það sem miður hefur farið í tengslum við mál innflytjenda og hælisleitenda í Danmörku.
Danska knattspyrnusambandið kveðst ekki hafa nein tengsl við umrædd samtök. Vefsíðan var fyrst skráð í gegnum fyrirtækið NameCheap. Þannig er raunveruleg staðsetning heimasíðunnar nánast órekjanleg.
Samtökin eru með skrifstofu skráða á Íslandi, en vefsíðan getur þó verið starfrækt hvaðan að sem er úr heiminum. Líklegt þykir að einstaklingarnir að baki samtökunum séu staddir í Katar.