Kafarar munu hefja rannsókn á skemmdum á brúnni yfir Kertsj-sund milli Rússlands og Krímskaga í dag, en brúin varð fyrir sprengingu í gærmorgun með þeim afleiðingum að þrír létust.
Marat Khusnullin, varaforsætisráðherra Rússlands, tjáði ríkismiðlum þar í landi að fyrstu niðurstöður væru jafnframt væntanlegar í dag. Rússar hafa þegar hert öryggisgæslu á brúnni í kjölfar sprengingarinnar.
Brúin hefur gegnt lykilhlutverki fyrir Rússland í stríðinu að því er varðar flutning hergagna, skotfæra og hermanna inn í suðurhluta Úkraínu.
Sprengingin varð í flutningabifreið í eigu manns með skráð lögheimili í Krasnotar-héraði í suðurhluta Rússlands. Úkraínsk stjórnvöld hafa ekki lýst því yfir hvort hersveitir þeirra beri ábyrgð á sprengingunni.
Á Krímskaga eru enn mánaðarbirgðir af eldsneyti og meira en tveggja mánaða matarbirgðir, að sögn Sergei Aksyonov, ríkisstjóra.
„Ástandið er viðráðanlegt – það er óþægilegt en ekki banvænt.“