Tvítugur svartur maður var skotinn til bana af lögreglu í Detroit í Bandaríkjunum í gær. Boðað var til blaðamannafundar vegna atviksins.
Á þremur sekúndum hleypti lögreglan af 38 skotum. Allir hlutaðeigandi lögreglumenn eru nú komnir í leyfi frá störfum. Myndefni úr búkmyndavélum lögreglumannanna hefur verið gert opinbert. ABC greinir frá.
Porter Burks hafði verið greindur með geðklofa og var í geðrofi þegar hann var skotinn. Hann er sagður hafa handleikið tuttugu sentímetra langan hníf. Í myndbandinu heyrist í lögreglumönnunum skipa Burks að leggja frá sér hnífinn og bjóðast til þess að sækja honum aðstoð.
„Þú ert ekki í neinum vanda, slepptu bara hnífnum og við útvegum þér hjálp.“
Burks sést þá hlaupa í átt að lögreglumönnunum, áður en hann er skotinn.
„Þetta er hörmung en aðstæður voru lífshættulegar,“ sagði lögreglustjórinn á blaðamannafundinum. Hann bætti við að valdi væri ekki beitt nema í neyðartilfellum.
Fjöldi lögreglumanna var á vettvangi en aðeins fimm þeirra hleyptu af skotum úr vopnum sínum.
Bróðir Burks var sá sem kallaði til lögregluna. Burks hafði verið í geðrofi og bróðir hans sagði hann hafa skorið á dekk og verið vopnaður hnífi. Hann hafi óttast um öryggi fólks.
Árið 2020 var lögregla kölluð til vegna Burks sem hafði þá stungið systur sína í hálsinn og í hendina, og bróður sinn í höfuðið þegar hann kom henni til varnar.
Lögreglustjórinn harmar atburðinn og segir ljóst að Burks hafi ekki fengið þá hjálp sem hann þurfti á að halda vegna sjúkdóms síns. Kerfið hafi brugðist honum ítrekað.