Ætla að „endurbyggja allt“ eftir árásirnar

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í nýjasta ávarpi sínu að þjóðin muni „endurbyggja allt það sem var eyðilagt“ eftir að Rússar gerðu flugskeytaárásir víðs vegar um Úkraínu í gær.

Selenskí hvatti fólk til að fylgja öryggisreglum og veita loftvarnaflautum athygli. „Hættan er enn til staðar en við erum að berjast.“

Hann bætti við að Rússar hefðu gripið til flugskeytaárása vegna þess að „þeir eiga ekkert í okkur á vígvellinum“.

„Við skulum gera vígvöllinn enn sársaukafyllri fyrir óvininn,“ sagði forsetinn.

Neyðarfundur G7-ríkja í dag

Bandaríkin ásamt hinum G7-ríkjunum halda neyðarfund í dag vegna flugskeytaárásanna, ásamt Selenskí.

Búist er við því að Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, muni hvetja leiðtoga ríkjanna til að halda sínu striki þegar kemur að stuðningi við Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert