Ætlaði að myrða kennara og nemendur

Þýska lögreglan handsamaði piltinn í lögregluaðgerðum 12. maí sl. Degi …
Þýska lögreglan handsamaði piltinn í lögregluaðgerðum 12. maí sl. Degi áður en hann ætlaði sér að gera árás. Myndin er úr safni. AFP

Þýsk yfirvöld hafa ákært 17 ára gamlan unglingspilt fyrir að hafa ætlað að gera sprengjuárás í skóla í maí á þessu ári. Lögreglan kom í veg fyrir ódæðið degi áður en hann ætlaði að láta til skarar skríða, en pilturinn var þá handtekinn.

Saksóknarar segja í yfirlýsingu að pilturinn, sem er aðeins nefndur á nafn sem Jeremy R., sé sakaður um að hafa skipulagt árás á skóla í Essen í Þýskalandi undir áhrifum hægriöfgamanna. Hann hafi ætlað að nota sprengjur og önnur vopn, að því er segir í umfjöllun AFP-fréttaveitunnar.

„Til stóð að myrða kennara og marga nemendur,“ segir í yfirlýsingunni, en árásin átti að eiga sér stað 13. maí sl. 

Jeremy, sem var 16 ára þegar hann var handtekinn, er sagður hafa komist yfir upplýsingar og þau efni sem hann þurfti til að smíða rörasprengjur í gegnum netið.

Hann var einnig búinn að koma sér upp alls kyns vopnum á borð við hnífa, hnúajárn, sveðjur og lásboga sem og skotvopn. 

Lögreglan í Essen réðst til inngöngu á heimili piltsins að kvöldi 12. maí. Þar kom í ljós efni sem sýndi gyðingahatur og andúð á múslímum. Einnig fannst texti sem hann hafði sjálfur skrifað sem gaf sterklega til kynna að pilturinn glímdi við alvarleg geðræn vandamál. 

Lögreglu barst ábending frá öðrum unglingi sem kvaðst hafa upplýsingar um að Jeremy R. vildi gera sprengjuárás í skólanum, sem er aðeins um 800 metra frá heimili hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert