Aldrei minna atvinnuleysi, en...

Atvinnuleysi í Bretlandi er ekki nema 2,5 prósent um þessar …
Atvinnuleysi í Bretlandi er ekki nema 2,5 prósent um þessar mundir, en ekki er allt sem sýnist. Ljósmynd/Breska hagstofan/ONS

At­vinnu­leysi í Bretlandi hef­ur ekki mælst svo lítið sem nú í tæp 50 ár, 3,5 pró­sent var það í ág­úst. Sá bögg­ull fylg­ir þó skammrifi að stór­an hluta skýr­ing­ar­inn­ar á þessu lága hlut­falli má rekja til þess að aldrei hafa fleiri á aldr­in­um 16 til 64 ára þar í land­inu verið utan vinnu­markaðar vegna lang­tíma­veik­inda og ekki virk­ir í at­vinnu­leit af þeim sök­um.

Þessi hóp­ur tel­ur nú tæp­lega 2,5 millj­ón­ir eft­ir því sem breska hag­stof­an ONS grein­ir frá. Fjöldi þeirra sem hvorki eru í vinnu né að leita henn­ar hef­ur auk­ist um­tals­vert síðustu mánuði seg­ir Dav­id Freem­an, for­stöðumaður ONS.

„Þótt fjöldi lausra starfa sé mik­ill eft­ir langt vaxt­ar­tíma­bil á vinnu­markaði hef­ur þeim fækkað nú upp á síðkastið og við heyr­um frá vinnu­veit­end­um að þeir dragi sam­an segl­in í ráðning­um vegna ým­iss kon­ar efna­hagsþreng­inga,“ seg­ir Freem­an við breska rík­is­út­varpið BBC.

Skrópa í at­vinnu­viðtöl­um

Þannig fækkaði laus­um störf­um um 46.000 síðustu þrjá mánuði og voru þá um það bil 1.246.000 í land­inu, en fækk­un­in er sú mesta síðan um mitt ár 2020 þegar kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn var að sækja í sig veðrið.

PMG Services, end­ur­vinnslu­fyr­ir­tæki í Bristol, er einn þeirra vinnu­veit­enda sem berj­ast í bökk­um við að út­vega sér fólk til starfa. Eru starfs­menn þar nú 50 en laus störf þó fjöl­mörg. „Við heyr­um frá fjölda áhuga­samra um­sækj­enda, bjóðum at­vinnu­viðtöl og svo skrópa flest­ir,“ seg­ir Clare McGu­inn­ess, talskona PMG Services, og bæt­ir því við að ann­ar hóp­ur fari gegn­um ferlið og fái vinnu en mæti svo ekki þegar á hólm­inn er komið sem komi sér ákaf­lega illa fyr­ir rekst­ur­inn.

Hækkaði fyr­ir­tækið laun til að laða til sín um­sækj­end­ur og halda í nú­ver­andi starfs­fólk en það kem­ur niður á fjár­hags­stöðunni. „Þetta er orðið býsna rýrt. Við höf­um aukið af­köst­in en okk­ur eru þröng­ar skorður sett­ar og það haml­ar öll­um vexti,“ seg­ir McGu­inn­ess enn frem­ur.

Boðar blóm í haga

Töl­ur ONS sýna svart á hvítu að þótt laun í land­inu hafi hækkað nái hækk­an­irn­ar eng­an veg­inn að halda í við verðhækk­an­ir úr öll­um átt­um. Grunn­launa­hækk­un upp á 5,4 pró­sent tíma­bilið júní til ág­úst er sú mesta eft­ir heims­far­ald­ur­inn en hef­ur engu að síður ekki roð við 9,9 pró­senta verðbólgu, þeirri mestu í Bretlandi í 40 ár. Séu verðhækk­an­ir reiknaðar á móti launa­hækk­un­um verður út­kom­an 2,9 pró­senta lækk­un grunn­launa yfir sum­ar­mánuðina seg­ir ONS.

Kwasi Kw­arteng fjár­málaráðherra boðar þó betri tíð með blóm í haga og bend­ir á nýju vaxtaráætl­un­ina (e. Growth Plan) sem ætlað sé að koma á sjálf­bær­um lang­tíma­hag­vexti með hærri laun­um og bætt­um lífs­skil­yrðum öll­um til handa auk þess sem skatta­lækk­an­ir séu inn­an seil­ing­ar til að tryggja launa­fólki drýgri hlut erfiðis síns.

BBC

The Guar­di­an

Fin­ancial Times

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert