Atvinnuleysi í Bretlandi hefur ekki mælst svo lítið sem nú í tæp 50 ár, 3,5 prósent var það í ágúst. Sá böggull fylgir þó skammrifi að stóran hluta skýringarinnar á þessu lága hlutfalli má rekja til þess að aldrei hafa fleiri á aldrinum 16 til 64 ára þar í landinu verið utan vinnumarkaðar vegna langtímaveikinda og ekki virkir í atvinnuleit af þeim sökum.
Þessi hópur telur nú tæplega 2,5 milljónir eftir því sem breska hagstofan ONS greinir frá. Fjöldi þeirra sem hvorki eru í vinnu né að leita hennar hefur aukist umtalsvert síðustu mánuði segir David Freeman, forstöðumaður ONS.
„Þótt fjöldi lausra starfa sé mikill eftir langt vaxtartímabil á vinnumarkaði hefur þeim fækkað nú upp á síðkastið og við heyrum frá vinnuveitendum að þeir dragi saman seglin í ráðningum vegna ýmiss konar efnahagsþrenginga,“ segir Freeman við breska ríkisútvarpið BBC.
Þannig fækkaði lausum störfum um 46.000 síðustu þrjá mánuði og voru þá um það bil 1.246.000 í landinu, en fækkunin er sú mesta síðan um mitt ár 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn var að sækja í sig veðrið.
PMG Services, endurvinnslufyrirtæki í Bristol, er einn þeirra vinnuveitenda sem berjast í bökkum við að útvega sér fólk til starfa. Eru starfsmenn þar nú 50 en laus störf þó fjölmörg. „Við heyrum frá fjölda áhugasamra umsækjenda, bjóðum atvinnuviðtöl og svo skrópa flestir,“ segir Clare McGuinness, talskona PMG Services, og bætir því við að annar hópur fari gegnum ferlið og fái vinnu en mæti svo ekki þegar á hólminn er komið sem komi sér ákaflega illa fyrir reksturinn.
Hækkaði fyrirtækið laun til að laða til sín umsækjendur og halda í núverandi starfsfólk en það kemur niður á fjárhagsstöðunni. „Þetta er orðið býsna rýrt. Við höfum aukið afköstin en okkur eru þröngar skorður settar og það hamlar öllum vexti,“ segir McGuinness enn fremur.
Tölur ONS sýna svart á hvítu að þótt laun í landinu hafi hækkað nái hækkanirnar engan veginn að halda í við verðhækkanir úr öllum áttum. Grunnlaunahækkun upp á 5,4 prósent tímabilið júní til ágúst er sú mesta eftir heimsfaraldurinn en hefur engu að síður ekki roð við 9,9 prósenta verðbólgu, þeirri mestu í Bretlandi í 40 ár. Séu verðhækkanir reiknaðar á móti launahækkunum verður útkoman 2,9 prósenta lækkun grunnlauna yfir sumarmánuðina segir ONS.
Kwasi Kwarteng fjármálaráðherra boðar þó betri tíð með blóm í haga og bendir á nýju vaxtaráætlunina (e. Growth Plan) sem ætlað sé að koma á sjálfbærum langtímahagvexti með hærri launum og bættum lífsskilyrðum öllum til handa auk þess sem skattalækkanir séu innan seilingar til að tryggja launafólki drýgri hlut erfiðis síns.