Boðskiptum ábótavant við kafbátaslys

Bandarískur kjarnorkukafbátur í Grøtsund-höfninni utan við Tromsø.
Bandarískur kjarnorkukafbátur í Grøtsund-höfninni utan við Tromsø. Ljósmynd/Norski herinn/Krister Sørbø

Pott­ur er víða brot­inn þegar kem­ur að boðskipt­um milli ým­issa op­in­berra aðila og neyðarviðbragðsaðila ann­ars veg­ar og al­menn­ings hins veg­ar í Norður-Nor­egi. Kom þetta í ljós við æf­ingu í Troms og Finn­mark ný­lega þar sem æfð voru viðbrögð við geisla­virk­um leka úr kjarn­orkukaf­báti.

Sí­fellt fleiri kjarn­orkukaf­bát­ar á veg­um banda­ríska sjó­hers­ins heim­sækja bæ­inn Tromsø og liggja þar um lengri eða skemmri tíma, þétt upp við 80.000 íbúa byggðarlag, nokkuð sem oft­ar en einu sinni hef­ur orðið kveikj­an að mót­mæl­um al­menn­ings.

Var æf­ing­in á veg­um norska hers­ins, viðbragðsaðila, fylk­is­ins og nokk­urra sveit­ar­fé­laga þar, Tromsø vit­an­lega þar á meðal.

Vill æf­ingu sem snýst aðeins um boðskipti

„Þegar við höld­um æf­ing­ar kem­ur alltaf eitt­hvað í ljós sem bet­ur má fara og þannig var það líka nú,“ seg­ir Ronny Schjelderup, viðbragðsstjóri fylk­is­manns­ins í Troms og Finn­mark, við norska rík­is­út­varpið NRK. Sem fyrr seg­ir leiddi æf­ing­in í ljós að upp­lýs­ingaflæði op­in­beru aðil­anna til al­menn­ings er ábóta­vant og seg­ir Schjelderup úti­lokað að líta fram hjá þeirri niður­stöðu.

Seg­ir hann boðskipta­kerf­in í full­komnu lagi, það sem þarfn­ist nán­ari skoðunar sé efn­is­legt inni­hald upp­lýs­ing­anna. Þar þurfi að sögn Schjelderups að út­búa meira af fyr­ir­fram­sömd­um upp­lýs­ing­um sem hægt sé að senda út þegar þörf kref­ur.

Óskar hann því eft­ir sér­stakri æf­ingu sem snú­ist ein­göngu um sam­skipt­in milli op­in­berra aðila inn­byrðis og svo milli þeirra og al­menn­ings.

„Við verðum sí­fellt að vinna að því að bæta okk­ur, en þegar á heild­ina er litið erum við núna vel í stakk búin til að eiga við geisla­virk­an leka frá kaf­báti.“

Miða við það versta

Øyvind Gund­er­sen, viðbragðsstjóri lög­regl­unn­ar í Tromsø, ját­ar við NRK að sam­skipt­in milli ólíkra op­in­berra aðila mættu vera betri.

„Þegar svona lagað kem­ur upp á [geisla­virk­ur leki] er um björg­un­araðgerð að ræða og þá vilj­um við hafa verk­ferla og skipu­lag í kring­um það sem gera þarf,“ seg­ir Gund­er­sen og tek­ur um leið fram að lík­urn­ar á slík­um at­b­urði séu ekki mikl­ar í Tromsø en viðbrögðin þurfi engu að síður að æfa.

„Við miðum áætlan­ir okk­ar alltaf við það versta sem get­ur gerst. Þá skipt­ir öllu að vinnu­brögðin séu fum­laus og hlutaðeig­andi aðilar séu í góðu sam­bandi hver við ann­an.

NRK
NRKII (heim­sókn kaf­báts­ins USS Al­bany í vor)
NRKIII (íbú­ar Tromsø mót­mæla)

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert