Boðskiptum ábótavant við kafbátaslys

Bandarískur kjarnorkukafbátur í Grøtsund-höfninni utan við Tromsø.
Bandarískur kjarnorkukafbátur í Grøtsund-höfninni utan við Tromsø. Ljósmynd/Norski herinn/Krister Sørbø

Pottur er víða brotinn þegar kemur að boðskiptum milli ýmissa opinberra aðila og neyðarviðbragðsaðila annars vegar og almennings hins vegar í Norður-Noregi. Kom þetta í ljós við æfingu í Troms og Finnmark nýlega þar sem æfð voru viðbrögð við geislavirkum leka úr kjarnorkukafbáti.

Sífellt fleiri kjarnorkukafbátar á vegum bandaríska sjóhersins heimsækja bæinn Tromsø og liggja þar um lengri eða skemmri tíma, þétt upp við 80.000 íbúa byggðarlag, nokkuð sem oftar en einu sinni hefur orðið kveikjan að mótmælum almennings.

Var æfingin á vegum norska hersins, viðbragðsaðila, fylkisins og nokkurra sveitarfélaga þar, Tromsø vitanlega þar á meðal.

Vill æfingu sem snýst aðeins um boðskipti

„Þegar við höldum æfingar kemur alltaf eitthvað í ljós sem betur má fara og þannig var það líka nú,“ segir Ronny Schjelderup, viðbragðsstjóri fylkismannsins í Troms og Finnmark, við norska ríkisútvarpið NRK. Sem fyrr segir leiddi æfingin í ljós að upplýsingaflæði opinberu aðilanna til almennings er ábótavant og segir Schjelderup útilokað að líta fram hjá þeirri niðurstöðu.

Segir hann boðskiptakerfin í fullkomnu lagi, það sem þarfnist nánari skoðunar sé efnislegt innihald upplýsinganna. Þar þurfi að sögn Schjelderups að útbúa meira af fyrirframsömdum upplýsingum sem hægt sé að senda út þegar þörf krefur.

Óskar hann því eftir sérstakri æfingu sem snúist eingöngu um samskiptin milli opinberra aðila innbyrðis og svo milli þeirra og almennings.

„Við verðum sífellt að vinna að því að bæta okkur, en þegar á heildina er litið erum við núna vel í stakk búin til að eiga við geislavirkan leka frá kafbáti.“

Miða við það versta

Øyvind Gundersen, viðbragðsstjóri lögreglunnar í Tromsø, játar við NRK að samskiptin milli ólíkra opinberra aðila mættu vera betri.

„Þegar svona lagað kemur upp á [geislavirkur leki] er um björgunaraðgerð að ræða og þá viljum við hafa verkferla og skipulag í kringum það sem gera þarf,“ segir Gundersen og tekur um leið fram að líkurnar á slíkum atburði séu ekki miklar í Tromsø en viðbrögðin þurfi engu að síður að æfa.

„Við miðum áætlanir okkar alltaf við það versta sem getur gerst. Þá skiptir öllu að vinnubrögðin séu fumlaus og hlutaðeigandi aðilar séu í góðu sambandi hver við annan.

NRK
NRKII (heimsókn kafbátsins USS Albany í vor)
NRKIII (íbúar Tromsø mótmæla)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert