Í gæsluvarðhald fyrir skotárás

Grunuðu sjást forða sér af vettvangi á vespu eftir ódæðið …
Grunuðu sjást forða sér af vettvangi á vespu eftir ódæðið á fimmtudaginn. Voru þeir handteknir um helgina og hafa nú verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, annar grunaður um manndráp og tilraun til manndráps, hinn samverknað við sömu brot. Ljósmynd/Vegfarandi

Tveir menn, sem handteknir voru um helgina, grunaðir um banvæna skotárás í Södertälje í Svíþjóð á fimmtudaginn, hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Liggur annar þeirra undir grun um manndráp og tilraun til manndráps, en hinn um samverknað við sömu afbrot. Sáust mennirnir forða sér af vettvangi á vespu.

Nítján ára karlmaður týndi lífi sínu í skotárásinni og 16 ára piltur liggur alvarlega sár á sjúkrahúsi.

Íbúar felmtri slegnir

Kváðust íbúar í Saltskog-hverfinu, þar sem árásin átti sér stað, felmtri slegnir og einhverjir nefndu það við fréttakonu sænska ríkisútvarpsins SVT á vettvangi að þeir íhuguðu búferlaflutninga.

Var skotárásin á fimmtudag sú fimmta í bænum á tæplega hálfum mánuði en síðan í febrúar hafa sex manns látið lífið af skotsárum þar.

Mikael Carlsson saksóknari segir rannsókn málsins í fullum gangi, grunuðu sæti yfirheyrslum og símanotkun þeirra sé enn fremur til rannsóknar. „Við höfum enn þá áhuga á að heyra frá vitnum og öllum sem geta varpað einhverju ljósi á atburðarásina,“ segir saksóknari við SVT.

SVT
Aftonbladet (sést til grunuðu á flótta)
Aftonbladet II (flóttaökutækið fundið)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert