„Jessica Fletcher“ látin

Angela Lansbury í maí 2016.
Angela Lansbury í maí 2016. AFP/Robyn Beck

Írsk-bresk-bandaríska leikkonan Angela Lansbury, sem átti hug og hjörtu fjölda Íslendinga um árabil í hlutverki rithöfundarins Jessicu Fletcher í þáttunum Morðgáta, „Murder, She Wrote“, er gengin á vit feðra sinna, 96 ára að aldri.

„Börnum Dame Angelu Lansbury [leikkonan var öðluð árið 2014 og bar síðan titilinn Dame] tekur það sárt að greina frá því að móðir þeirra lést friðsamlega í svefni á heimili sínu í Los Angeles klukkan 01:30 í dag, þriðjudaginn 11. október 2022, aðeins fimm dögum fyrir 97 ára afmælisdag sinn,“ segir í tilkynningu fjölskyldunnar.

Flaggskip CBS um árabil

Hlaut Lansbury hin eftirsóttu bandarísku Tony-sviðslistaverðlaun fimm sinnum, meðal annars fyrir túlkun sína á Nellie Lovett í söngleiknum Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street árið 1979.

Lék hún fjölda hlutverka á sviði jafnt sem í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, bandarískum sjónvarpsáhorfendum – og ef til vill íslenskum – þó eftirminnilegust fyrir Morðgátuþættina en þáttaraðirnar urðu alls tólf árin 1984 til '96 og eitt alvinsælasta sjónvarpsefni CBS-stöðvarinnar á níunda áratugnum. „Við fundum okkar áhorfendur og þeir héldu tryggð við okkur,“ sagði Lansbury um þættina í viðtali árið 1998.

NBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert