Samtök apóteka í Finnlandi hafa ráðið almenningi frá því að hamstra joðtöflur. Birgðir apóteka eru nær uppseldar eftir útspil stjórnvalda landsins í morgun.
Samtökin gáfu út yfirlýsingu síðdegis í dag að staðartíma, í kjölfar þess að heilbrigðisráðuneyti landsins uppfærði ráðleggingar sínar um joðtöflur.
Samkvæmt nýju ráðleggingunum, sem kynntar voru á blaðamannafundi árdegis í dag, skal á hverju heimili vera til staðar einn skammtur af joðtöflum fyrir hverja manneskju á aldrinum 3 til 40 ára, til að verjast áhrifum geislavirkni.
Stærsta keðja apóteka í Finnlandi, Yliopiston-apótekin, segir birgðir sínar hafa hér um bil selst upp í dag eftir blaðamannafund stjórnvalda.
Samtökin hafa því reynt að skerpa á skilaboðunum.
„Aðeins ætti að kaupa joðtöflur ef það er fólk undir 40 ára eða ófrískt fólk á heimilinu. Útrunnum joðtöflum ætti að skila í apótekið sem lyfjaúrgangi,“ segir í tilkynningu þeirra, samkvæmt umfjöllun finnska ríkisútvarpsins.