Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir eldflaugaárásir Rússa í gær vera merki um veikleika innan herbúða þeirra.
„Ég tel að það sem við sáum í gær sé í raun merki um veikleika, því að raunveruleikinn er sá að þeir geta ekki náð árangri á vígvellinum. Rússland er í raun og veru að tapa á vígvellinum,“ sagði Stoltenberg í ávarpi sínu í dag, í aðdraganda fundar fulltrúa aðildarríkja bandalagsins.
„Þannig að leiðin fyrir þá til að svara er með handahófskenndum árásum á úkraínskar borgir, sem hæfa almenna borgara og mikilvæga innviði.“
Rússar stóðu fyrir umfangsmiklum flugskeytaárásum í gærmorgun, þar sem almennir borgarar lágu í valnum víðs vegar um Úkraínu. Meðal annars lentu sprengjur á stórum gatnamótum skammt frá háskóla og á leikvelli í almenningsgarði í Kænugarði.
Lítt duldar kjarnavopnahótanir Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta eru þá „hættulegar og óábyrgar“, sagði Stoltenberg.
„Rússland veit að kjarnorkustríð getur ekki unnist og má aldrei há. Við fylgjumst grannt með kjarnavopnasveitum Rússa. Við höfum ekki séð neinar breytingar á stellingum Rússlands. En við verðum árvökul áfram.“
Fram kom einnig í máli framkvæmdastjórans að bandalagið hefði tvíeflt veru sína í Eystrasalti og Norðursjó. Þar séu nú fleiri en þrjátíu skip, ásamt flugvélum og „neðansjávargetu“.
Stjórnvöld í Svíþjóð og Danmörku rannsaka enn lekana sem komu að gasleiðslunum Nord Stream 1 og 2, skammt undan Borgundarhólmi. Bandalagið hefur ekki formlega sakað neinn um að hafa sprengt göt á leiðslurnar.