139 milljarða samsæriskenning

Jones ræðir við fjölmiðla fyrir utan dómshúsið í Waterbury 21. …
Jones ræðir við fjölmiðla fyrir utan dómshúsið í Waterbury 21. september. AFP/Joe Buglewicz

Kviðdómur við dómstól í Waterbury í Connecticut-ríki í Bandaríkjunum komst í dag að þeirri niðurstöðu að samsæriskenningasmiðurinn Alex Jones skyldi greiða 965 milljónir dala hið minnsta, andvirði 139,2 milljarða íslenskra króna, í skaðabætur til aðstandenda fórnarlamba skotárásarinnar í Sandy Hook-grunnskólanum í Newton í Connecticut 14. desember 2012.

Hélt Jones því fram að árás hins tvítuga Adams Lanza, sem varð alls 26 að bana, 20 nemendum skólans og sex starfsmönnum, hefði verið uppspuni frá rótum og hefðu leikarar tekið sér hlutverk fórnarlamba árásarinnar. Hefðu bandarísk stjórnvöld staðið á bak við allt saman með það fyrir augum að skerða aðgengi almennings að skotvopnum.

Tróð fjölskyldurnar fótum

Lögmenn aðstandendanna héldu því fram við réttarhöldin að Jones hefði haft vel upp úr því fjárhagslega hin síðustu ár að ljúga til um árásina. Þannig hefði umferð verið mikil um vefsíðu hans, Infowars, sem enn fremur hefði ýtt undir sölu ýmiss varnings sem Jones falbauð þar.

Ofan á þetta, sagði lögmaðurinn Chris Mattei, máttu aðstandendur fórnarlambanna þola áralangar ofsóknir fylgismanna Jones sem trúðu kenningum hans eins og nýju neti. „Hver einasta fjölskylda var að drukkna í harmi og Alex Jones tróð þær fótum,“ sagði Mattei við kviðdómendur.

Norman Pattis, lögmaður Jones, tók til þeirra varna að stefnendur málsins hefðu ekki sýnt fram á nokkurt tjón og hvatti kviðdómendur til að láta ekki pólitíska undiröldu málsins draga  sig í kaf.

Neitaði að biðjast afsökunar

„Þetta mál snýst ekki um pólitík, það snýst um hve mikið stefnendur skuli fá í skaðabætur,“ sagði Pattis. Aðalmeðferð málsins einkenndist af margra vikna vitnaleiðslum þar sem aðstandendurnir greindu frá því hve þyngt þeim var af lygum Jones um Sandy Hook. Alríkislögreglumaður sem kom á vettvang, meðan á árásinni stóð, er einn stefnendanna.

Jones, sem hefur á síðari stigum viðurkennt að árásin hafi verið raunveruleg, steig einnig í vitnastúkuna og vakti þar mikinn úlfaþyt með því að neita staðfastlega að biðja aðstandendurna afsökunar.

Er hér ekki um einu bæturnar að ræða sem Jones og fyrirtæki hans þurfa að reiða fram. Annar kviðdómur, í Austin í Texas, þar sem höfuðstöðvar Infowars-fyrirtækis Jones eru til húsa, komst að þeirri niðurstöðu í ágúst að hann skyldi greiða foreldrum barna, sem létu lífið í Sandy Hook, 49,3 milljónir í bætur fyrir sömu misgerðir, en sú upphæð nemur 7,1 milljarði króna.

Reuters

New York Times

Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert