150.000 farið um Darien-skóginn

Darien-skógurinn liggur á mörkum Suður- og Mið-Ameríku, milli Kólumbíu og …
Darien-skógurinn liggur á mörkum Suður- og Mið-Ameríku, milli Kólumbíu og Panama. Kort/Wikipedia.org/cmglee

Rúmlega 150.000 farendur hafa það sem af er árinu farið um hinn háskalega Darien-frumskóg á landamærum Panama og Kólumbíu. Frá þessu greina yfirvöld innflytjendamála í Panama og jafnframt því að aldrei hafi fleiri fetað þessa slóð eitt og sama árið svo vitað sé.

Í gær greindu þau frá því að 151.582 farendur hefðu farið um skóginn frá ársbyrjun til septemberloka en þar er um að ræða fólk sem hyggst freista þess að komast til Bandaríkjanna í von um betra líf en það sem bíður þess í klóm fátæktar, örbirgðar og ofbeldis í heimalöndunum, en flestir farendanna koma frá Venesúela.

Reikna með fleiri en 160.000

Af þessum rúmlega 150.000 farendum hafa 21.570 verið undir lögaldri en þegar litið er til heildarfjöldans er þar um töluverða fjölgun að ræða frá því í fyrra þegar 133.726 fóru um Darien-skóginn allt árið. Reiknað er með að heildarfjöldinn í ár verði yfir 160.000 manns þegar upp er staðið.

„Fordæmalaus fjöldi Venesúela-búa hefur hætt lífi sínu við að fara um frumskóginn á mörkum Mið- og Suður-Ameríku,“ segir Giuseppe Loprete, forstöðumaður Panama-deildar Alþjóðafarendastofnunarinnar, International Organization for Migration, í samtali við Reuters-fréttastofuna.

Stjórnvöld í Panama kveðast vera þau einu sem bjóða farendum mannúðar- og heilbrigðisaðstoð er þeir koma út úr Darien-skóginum og hafa þau biðlað til nágrannalanda að leggja þar gjörva hönd á plóg.

Reuters

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert