Á torginu tökum við Stanislav tali. Hann er 50 ára og kominn á eftirlaun. Hvernig kom rússneski herinn fram við ykkur? „Þetta var sundurleitur hópur. Þarna voru rússneskir atvinnuhermenn, sveitir frá Lúgansk og Donétsk héraði (LDNR – yfirleitt óbreyttir borgarar sem hafa verið kvaddir í herinn frá þessum aðskilnaðarhéruðum), málaliðar frá Wagner (að nafninu til einkarekið málaliðafyrirtæki), sveitir frá Tsjetsníu, Rosgvardía (hervædd óeirðalögregla) og FSB (innanríkisleyniþjónusta Rússlands).
Verstir voru hermennirnir frá LDNR. Þeir voru illa útbúnir, yfirleitt í alltof stórum fötum og fóru ránshendi um eignar íbúanna og voru ætíð að leita að áfengi. Þeir keyrðu á skriðdrekum um borgina í leit að vodka.
Þetta er upp til hópa rumpulýður, fangar, fylliraftar og dópistar, sem var sópað upp af götum Lúgansk og Donétsk. Maður reyndi einnig að forðast öll samskipti við Wagner og Tsjétsenana. Allir stálu í einhverju mæli og það virtist vera rígur og fjandskapur á milli hinna ólíku sveita. Atvinnuherinn t.a.m. fyrirleit LDNR. FSB virtust vera agaðir, en þeir sáu hins vegar um yfirheyrslur og pyntingar á borgurum og úkraínskum hermönnum sem teknir höfðu verið til fanga.“
Lýsing Stanislavs skýrir að hluta til þá erfiðleika í stjórn og eftirliti (e. command and control), sem hrjáð hafa rússneska herinn frá upphafi innrásarinnar. Það eru margar ólíkar sveitir sem eru að berjast í Úkraínu og frá mörgum herstjórnarhéruðum (e. military districts). Rússar hafa aldrei æft hernaðaraðgerð af þessari stærðargráðu áður.
Jón Gauti Jóhannsson, fréttaritari Morgunblaðsins í Úkraínu, kom til Ísjúm og nágrenni eftir að úkraínski herinn frelsaði borgina undan innrásarher Rússa nýlega. Hann var þar á ferð ásamt Oksönu Jóhannesson ljósmyndara, en nánari frásögn frá för þeirra var birt í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.