Átta handteknir vegna sprengingarinnar

Gervihnattarmynd af brúnni eftir að sprengingin varð.
Gervihnattarmynd af brúnni eftir að sprengingin varð. AFP

Rússar hafa handtekið átta manns sem eru grunaðir um aðild að sprengingu á brúnni sem tengir saman Krímskaga og Rússland, að því er kemur fram í yfirlýsingu rússnesku leyniþjónustunnar FSB.

Þar segir að „hryðjuverkaárásin“ hafi verði skipulögð af úkraínsku leyniþjónustunni. Sprengiefnið hafi verið geymt í plastrúllum sem hafi farið frá úkraínsku hafnarborginni Odessa í ágúst og þaðan í gegnum Búlgaríu, Georgíu og Armeníu áður en það fór inn í Rússland.

Þrír fórust í sprengingunni, sem varð í flutningabíl á brú yfir Kertsj-sund.

Daginn eftir hélt Vladimír Pútín Rússlandsforseti því fram að úkraínska leyniþjónustan hafi staðið á bak við sprenginguna. Úkraínumenn hafa ekki lýst yfir ábyrgð á henni.

Rússar efndu til mikilla flugskeytaárása víðs vegar um Úkraínu til að hefna fyrir sprenginguna, sem urðu að minnsta kosti 19 manns að bana og særðu yfir 100 manns, að sögn Úkraínumanna.

Uppfært kl. 7.46:

Rússneska leyniþjónustan segist jafnframt hafa komið í veg fyrir tvær árásir sem úkraínsk stjórnvöld hafi skipulagt á rússnesku landsvæði. Önnur þeirra átti að vera skammt frá Moskvu en hin í annarri borg skammt frá úkraínsku landamærunum.

Fram kemur að tveir Úkraínumenn hafi verið handteknir í tengslum við þessar meintu árásir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert