Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir ríki sitt vera öruggan birgi orku og sakar Vesturlönd um að valda truflunum á markaðinum.
Hann fullyrðir að „boltinn sé hjá Evrópusambandinu“ eftir sprengingarnar við gasleiðslurnar Nord Stream 1 og 2 í Eystrasaltinu. Ummælin féllu á málþingi um orku sem haldið er í Moskvu í dag.
„Ef þeir vilja, þá er hægt að skrúfa frá krönunum og málið er leyst,“ sagði forsetinn.
Kveður hann yfirvöld í Kreml reiðubúin að hefja afhendingu í gegnum hluta leiðslunnar sem lekarnir hafa ekki bitið á. Þá segir hann lekana afleiðingu „alþjóðlegra hryðjuverka“ sem sé Bandaríkjunum, Póllandi og Úkraínu í hag.
Leiðtogar í Evrópu hafa reynt að skipuleggja hvernig eigi að koma til móts við aukinn orkukostnað á sama tíma og þvingunum gegn Rússlandi verður haldið áfram.
Meirihluti aðildarríkja Evrópusambandsins hefur talað fyrir því að verðþaki verði komið á.
Pútín segir Rússa ekki ætla að veita orku til þeirra ríkja sem muni takmarka verð sitt.
„Með léttúðugum ákvörðunum sínum eru sumir vestrænir stjórnmálamenn að eyðileggja markaðshagkerfi heimsins og eru í raun að ógna velferð milljarða manna,“ sagði forsetinn.
„Venjulegir Evrópubúar þjást,“ bætti hann við. „Fólkið, rétt eins og á miðöldum, er byrjað að safna eldivið fyrir veturinn.“