Gígur í gær – lagað í dag

Úkraínumenn ekki lengi að fylla upp í stærðarinnar gíg eftir …
Úkraínumenn ekki lengi að fylla upp í stærðarinnar gíg eftir flugskeytaárás á mánudag og malbika svo yfir allt saman. Ljósmynd/Aðsend

„Sprengjugígur í gær, lagað í dag. Slava Ukraini [dýrð sé Úkraínu],“ skrifar Rune Bjerkelund, Dani búsettur í norska bænum Tønsberg og stofnandi hjálparsamtakanna A-Team Norway, á Facebook-síðu sína í gær við mynd frá úkraínsku höfuðborginni.

Og vissulega rétt, þar sem opinn gígur eftir flugskeytaárás blasti við á götu í fyrradag var kominn rennisléttur malbiksflötur í gær, málshraði sem gatnagerðaryfirvöld víðar í Evrópu mættu taka sér til fyrirmyndar, að minnsta kosti í Noregi eru blaðamaður og Bjerkelund sammála um.

Tønsberg-búinn Rune Bjerkelund hefur dvalið meira og minna í Úkraínu …
Tønsberg-búinn Rune Bjerkelund hefur dvalið meira og minna í Úkraínu á vegum sinna eigin samtaka, A-Team Norway, síðan daginn eftir innrás Rússa í febrúar. Hann hefur af ýmsu að segja og ætlar að spjalla við mbl.is á næstu vikum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég stofnaði A-Team Norway á sínum tíma og tilgangur samtakanna er að veita aðstoð á stríðssvæðum og annars staðar þar sem einhverjar hamfarir geisa,“ segir Bjerkelund frá, „ég hef verið í Úkraínu með hléum síðan daginn eftir að stríðið hófst. A-Team hefur á þeim tíma fært sjúkrahúsum og hersveitum á víglínunni lyf, hjúkrunarvörur og aðrar nauðsynjar,“ segir hann enn fremur.

„Við erum á bilinu sjö til 14 sem störfum fyrir A-Team, ég er með sjö manns núna í Karkív, Sapporitíja og Kerson og við berjumst fyrir framtíð Evrópu. Við höfum líklega upplifað flest af djöfulskap og sorg í þessari „sérstöku aðgerð“ [sem Pútín kallar innrásina] og þau eru ekki bara líkamleg sárin sem þetta stríð opnar,“ segir Rune Bjerkelund, íbúi í Tønsberg í Noregi og stofnandi A-Team Norway-samtakanna en mbl.is mun ræða ítarlega við Bjerkelund á næstu vikum um starfsemi hans og samtakanna á vígvöllunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert