Bandaríski auðkýfingurinn Elon Musk hefur vísað á bug fregnum um að hann hafi rætt við Vladimír Pútín Rússlandsforseta áður en hann birti skoðanakönnun á Twitter með ráðleggingum sínum um leiðir til að binda enda á stríðið í Úkraínu.
Ian Bremmer, forstjóri Eurasia Group, hélt því fram að Musk hafi sagt honum frá samtalinu við Pútín.
Musk segir að það sé ekki rétt, að því er BBC greinir frá.
„Ég hef aðeins einu sinni talað við Pútín og það var fyrir 18 mánuðum síðan. Umfjöllunarefnið var geimurinn,“ tísti Musk.
No, it is not. I have spoken to Putin only once and that was about 18 months ago. The subject matter was space.
— Elon Musk (@elonmusk) October 11, 2022
Fyrr í mánuðinum lenti Musk í deilum við úkraínska embættismenn á Twitter, þar á meðal Volodímír Selenskí Úkraínuforseta, vegna hugmynda Musk um leiðir til að binda enda á stríðsátökin.