Við nálgumst fjöldagröf í furuskógi skammt frá borginni. Dauf nálykt berst að vitum okkar. Við heyrum laufþyt og sólstafir lýsa upp fjöldagröfina. Nályktin er yfirþyrmandi þegar við komum að henni. „Þetta er þefur hins rússneska heims“, segir Svetlana, miðaldra kona við okkur. Hún er ein af aðstandendum þeirra látnu og er að gefa erfðasýni í hvítu tjaldi. Almannavarnir Úkraínu eru að grafa upp lík um 450 manns, sem féllu í árásum rússneska hersins á Ísjúm. Flestir voru óbreyttir borgarar, en einnig úkraínskir hermenn, sem voru flestir grafnir í fjöldagröf. Á einum stað hvíla þær fjórar kynslóðir einnar fjölskyldu, sem þurrkaðar voru út í loftárás rússneska hersins á íbúðarblokk í mars.
Allajafna eru líkin hvorki í kistum né líkpokum og í þeim fötum sem fólkið var í þegar það lést. Samkvæmt úkraínskum stjórnvöldum bera 30 líkanna ummerki pyntinga og aftöku, einkum lík hermanna - hendur bundnar fyrir aftan bak, reipi um hálsinn, brotnir útlimir og skotsár. Á nokkrum líkana sé ljóst að kynfæri karlmanna hafa verið skorin af, merki um þann hrylling sem átti sér stað undir hernámi Rússa.
Líkin eru illa farin eftir að hafa legið í jörðinni óvarin í vikur og mánuði. Mökkur af flugum er á sveimi og setjast á líkin. Þegar maður kemur nálægt líkunum þekja flugurnar handarbökin og sveima fyrir vitunum.
Eftir frumrannsókn eru líkin sett í hvíta eða svarta líkpoka og borin í flutningabifreiðar sem flytja þau til Kharkív til frekari rannsókna. Um 100 manns eru að störfum á svæðinu í hvítum hlífðargöllum og flestir eru með andlitsgrímur. Úkraínsk stjórnvöld segja að fleiri fjöldagrafir hafi fundist í kringum Ísjúm, en verið sé að aftengja sprengjur á þeim svæðum og því ekki aðgangur að þeim eins og komið er.
Ég spyr yfirmann lögreglunnar á svæðinu, Oleksandr, hvaða sjón hafi verið sú erfiðasta í uppgreftrinum. „Við opnuðum gröf i gær. Það voru einungis líkamshlutar þar. Fótur af kornabarni er það hryllilegasta sem ég hef séð til þessa.“
Svo lýsir Jón Gauti Jóhannsson, fréttaritari Morgunblaðsins, aðkomu í Ísjúm og nágrenni eftir að úkraínski herinn frelsaði borgina undan innrásarher Rússa. Hann var þar á ferð ásamt Oksönu Jóhannesson ljósmyndara, en nánari frásögn frá för þeirra var birt í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.