„Þefur hins rússneska heims“

Tugir líka í líkpokum. Líkin eru borin í flutningabifreiðar sem …
Tugir líka í líkpokum. Líkin eru borin í flutningabifreiðar sem flytja þau til frekari rannsóknar í Karkív. Um hundrað manns frá Almannavörnum Úkraínu voru að störfum á svæðinu. Ljósmynd/Oksana Jóhannesson

Við nálg­umst fjölda­gröf í furu­skógi skammt frá borg­inni. Dauf nálykt berst að vit­um okk­ar. Við heyr­um laufþyt og sól­staf­ir lýsa upp fjölda­gröf­ina. Nálykt­in er yfirþyrm­andi þegar við kom­um að henni. „Þetta er þefur hins rúss­neska heims“, seg­ir Svetl­ana, miðaldra kona við okk­ur. Hún er ein af aðstand­end­um þeirra látnu og er að gefa erfðasýni í hvítu tjaldi. Al­manna­varn­ir Úkraínu eru að grafa upp lík um 450 manns, sem féllu í árás­um rúss­neska hers­ins á Ísjúm. Flest­ir voru óbreytt­ir borg­ar­ar, en einnig úkraínsk­ir her­menn, sem voru flest­ir grafn­ir í fjölda­gröf. Á ein­um stað hvíla þær fjór­ar kyn­slóðir einn­ar fjöl­skyldu, sem þurrkaðar voru út í loft­árás rúss­neska hers­ins á íbúðarblokk í mars.

Alla­jafna eru lík­in hvorki í kist­um né lík­pok­um og í þeim föt­um sem fólkið var í þegar það lést. Sam­kvæmt úkraínsk­um stjórn­völd­um bera 30 lík­anna um­merki pynt­inga og af­töku, einkum lík her­manna - hend­ur bundn­ar fyr­ir aft­an bak, reipi um háls­inn, brotn­ir út­lim­ir og skotsár. Á nokkr­um lík­ana sé ljóst að kyn­færi karl­manna hafa verið skor­in af, merki um þann hryll­ing sem átti sér stað und­ir her­námi Rússa.

Herprestur heldur guðþjónustu við fjöldagrafirnar. Hann er fyrir framan leiði …
Her­prest­ur held­ur guðþjón­ustu við fjölda­graf­irn­ar. Hann er fyr­ir fram­an leiði Stolpa­kov-fjöl­skyld­unn­ar. Fjór­ir ættliðir henn­ar, átta manns, lét­ust í loft­árás rúss­neska hers­ins á íbúðarblokk í Ísjúm í mars. Ljós­mynd/​Oks­ana Jó­hann­es­son

Lík­in eru illa far­in eft­ir að hafa legið í jörðinni óvar­in í vik­ur og mánuði. Mökk­ur af flug­um er á sveimi og setj­ast á lík­in. Þegar maður kem­ur ná­lægt lík­un­um þekja flug­urn­ar hand­arbök­in og sveima fyr­ir vit­un­um.

Eft­ir frum­rann­sókn eru lík­in sett í hvíta eða svarta lík­poka og bor­in í flutn­inga­bif­reiðar sem flytja þau til Kharkív til frek­ari rann­sókna. Um 100 manns eru að störf­um á svæðinu í hvít­um hlífðargöll­um og flest­ir eru með and­lits­grím­ur. Úkraínsk stjórn­völd segja að fleiri fjölda­graf­ir hafi fund­ist í kring­um Ísjúm, en verið sé að af­tengja sprengj­ur á þeim svæðum og því ekki aðgang­ur að þeim eins og komið er.

Starfsmenn almannavarna Úkraínu að störfum á vettvangi.
Starfs­menn al­manna­varna Úkraínu að störf­um á vett­vangi. Ljós­mynd/​Oks­ana Jó­hann­es­son

Ég spyr yf­ir­mann lög­regl­unn­ar á svæðinu, Oleks­andr, hvaða sjón hafi verið sú erfiðasta í upp­greftr­in­um. „Við opnuðum gröf i gær. Það voru ein­ung­is lík­ams­hlut­ar þar. Fót­ur af korna­barni er það hrylli­leg­asta sem ég hef séð til þessa.“

Svo lýs­ir Jón Gauti Jó­hanns­son, frétta­rit­ari Morg­un­blaðsins, aðkomu í Ísjúm og ná­grenni eft­ir að úkraínski her­inn frelsaði borg­ina und­an inn­rás­ar­her Rússa. Hann var þar á ferð ásamt Ok­sönu Jó­hann­es­son ljós­mynd­ara, en nán­ari frá­sögn frá för þeirra var birt í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert