Maxim Dlugy, lærimeistari bandaríska stórmeistarans Hans Niemann, íhugar að fara í mál við Magnus Carlsen, heimsmeistara í skák, vegna ummæla Carlsens sem gaf í skyn að Dlugy hefði aðstoðað Niemann við svindl. Carlsen hefur sakað Niemann um að hafa rangt við þegar þeir öttu kappi hvor við annan í september á móti í St. Louis í Bandaríkjunum.
Niemann stóð þar uppi sem sigurvegari sem kom flestum í opna skjöldu. Carlsen heldur því aftur á móti fram að maðkur hafi verið í mysunni og Niemann hafi svindlað með utanaðkomandi aðstoð.
Fram kemur að Carlsen hafi minnst á nafn Dlugy í viðtali 21. september. Þar sagði norski heimsmeistarinn að Dlugy hefði staðið sig vel í að þjálfa Niemann.
Í viðtali við þýska blaðið Spiegel tjáði Dlugy sig í fyrsta sinn við fjölmiðla um ummælin, en hann segir að honum hafi brugði kveðst ekkert hafa með málið að gera. Fram kemur í umfjöllun blaðsins að Dlugy, sem er 56 ára gamall og búsettur í New York, hafi eitt sinn þótt vera besti hraðskákmaður í heimi og keppt við þá bestu.
Dlugy vill meina í samtali við Spiegel að eitthvað hafi brostið í höfði Carlsens, sem hann kveðst þekkja persónulega og bera mikla virðingu fyrir. Ástæðan sé einfaldlega sú að Carlsen þoli ekki Niemann og hvað þá að tapa fyrir honum við taflborðið. Það sem Carlsen hafi gert hafi verið fáránlegt og slæmt fyrir skákina.
Dlugy hefur ekki áhyggjur af sínu eigin orðspori en er þó að íhuga sína stöðu. Hann reiknar aftur á móti með því Niemann muni höfða dómsmál. Dlugy fer þó fram á það að Carlsen biðjist afsökunar á ummælunum.
Spiegel bendir á að Dlugy hafi verið sakaður um að svindla í tvígang í keppni á vef chess.com, fyrst árið 2017 og svo aftur 2020. Það varð til þess að reikningur Dlugys hjá síðunni var lokaður tímabundið og Dlugy settur í skammarkrókinn.
Dlugy neitar alfarið sök, en skrifaði hins vegar undir falska játningu 2020 í þeim tilgangi, að því er hann segir sjálfur frá, að reikningum yrði ekki alfarið lokað. Hann segir einnig frá því að forsvarsmenn skákvefjarins hefðu lofað að ekki yrði greint opinberlega frá atvikinu. Málið kom hins vegar í ljós í kjölfar umfjöllunar fréttasíðunnar Vice sem hafði tölvupósta undir höndum sem hafði verið lekið.
Fram kemur í viðtalinu að Dlugy hafi kynnst Niemann og föður hans á móti í Suður-Afríku fyrir átta árum þegar Niemann var 11 ára gamall. Aðspurður segir Dlugy að Niemann hafi ekki sýnt mótherjum sínum virðingu og rifið kjaft við þá. Hann sé einfaldlega þannig karakter.
Svo fór að Dlugy hóf að leiðbeina Niemann í gegnum netið, en Niemann var búsettur í Kaliforníu og Dlugy í New York. Dlugy segir að ungi skákmaðurinn hafi verið mjög hæfileikaríkur og minnt sig á rússneska stórmeistarann Anatolí Karpov