Rýmdu gasvinnslustöð vegna hótunar

Norðmenn hafa hert öryggisviðbúnað sinn við gas- og olíuvinnslustöðvar í …
Norðmenn hafa hert öryggisviðbúnað sinn við gas- og olíuvinnslustöðvar í kjölfar skemmdarverka sem hafa verið unnin á leiðslun í Eystrarsaltinu. AFP

Rýma varð stóra gasvinnslustöð við vesturhluta Noregs tímabundið í dag eftir að hótun barst símeliðis. Bretar eiga meðal annars í miklum viðskiptum við stöðina. 

Norðmenn hafa hert öryggi í kringum sínar gasvinnslu- og olíuvinnslustöðvar eftir að skemmdarverk voru unnin á gasleiðslum í Eystrarsaltinu, en Norðmenn tóku við keflinu sem aðalútflytjandi gass í Evrópu í kjölfar stríðsátakanna í Úkraínu.

Norska lögreglan greindi í morgun frá „óljósu ástandi“ við Nyhamna-stöðina sem vinnur gas úr Orminum langa, sem er næststærsta gasvinnslusvæði Noregs neðansjávar. 

Lögreglan sendi mannskap á vettvang án þess þó að tilgreina hvað hefði nákvæmlega gerst. 

Skömmu síðar sendi lögreglan frá sér aðra tilkynningu á Twitter að málinu væri lokið.

Odd Jørgen Nilssen, bæjarstjóri Aukra, þar sem stöðin er, sagði í samtali við AFP að hótun hefði borist símleiðis. Það leiddi til þess að stöðin varð rýmd tímabundið, en fyrirtækið Shell sér um rekstur hennar fyrir hönd norska ríkisfyrirtækisins Gassco. 

Talsmaður Shell í Noregi segir að vinna sé hafin á nýjan leik. 

Að sögn lögreglu hefur sami einstaklingur gerst sekur um svipað athæfi áður. 

„Það var ekkert sem benti til að um alvöru hótun væri að ræða og staðan er því aftur orðin eðlileg,“ segir í yfirlýsingu frá lögreglunni. 

Nyhamna-stöðin sér um að útvega Bretum um 20% af heildargasþörf landsins í gegnum Langeled-gasleiðsluna sem er 1.200 km löng og liggur á botni Norðursjávar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert