Sagði af sér eftir afhjúpun

Fjölmenni hafði safnast í vikunni saman fyrir utan ráðhúsið í …
Fjölmenni hafði safnast í vikunni saman fyrir utan ráðhúsið í Los Angeles til að krefjast afsagnar borgarfulltrúanna. AFP

Háttsettur borgarfulltrúi í Los Angeles í Bandaríkjunum hefur sagt af sér eftir að upptaka af henni, sem var tekin upp með leynd, fór í dreifingu. En á upptökunni heyrist konan varpa fram rasískum og niðrandi ummælum í samtali við tvo aðra borgarfulltrúa.  

Borgarfulltrúinn Nury Martinez lét af embætti sem forseti borgarstjórnar á mánudag en sat þó enn sem fastast í borgarstjórn. 

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, var á meðal þeirra sem kallaði eftir því að hún og tveir aðrir demókratar myndu víkja vegna málsins. 

Bandaríska blaðið Los Angeles Times fékk umrædda hljóðupptöku og birti á vefsíðu sinni. Um er að ræða upptöku frá því í október í fyrra á fundi þar sem rætt var um að endurskipulagningu á kjördæmaskipan. Ekki liggur fyrir hver tók samtalið upp, að því er segir í bandarískum fjölmiðlum. 

Í gær sendi Martinez frá sér yfirlýsingu þar sem hún greindi frá því að hún myndi láta af embætti eftir níu ára starf. Hún er fyrsti einstaklingurinn af rómönsku bergi brotnu sem gegndi embætti forseta borgarstjórnar. 

AFP

Á umræddri upptöku, þar sem Martinez ræðir við borgarfulltrúana Gil Cedillo og Kevin de León og Ron Herrara, sem er forseti verkalýðssamtaka í Los Angeles. Herrera, sem heyrist ekki láta nein niðrandi ummæli falla, lét af embætti sl. mánudag vegna málsins. 

Í samtalinu heyrist Martinez nota orðalag á spænsku þar sem hún líkti svörtum ættleiddum syni annars borgarfulltrúa við dýr. Martinez kvartaði einnig yfir því að barnið, sem var tveggja ára gamalt þá, hafi hagað sér illa í tengslum við ónefndan viðburð. 

„Þau eru að ala hann upp eins og lítinn hvítan krakka,“ sagði hún. „Ég hugsaði með mér, „Það þarf að híða þennan krakka. Leyfið mér að fara með hann fyrir hornið og ég kem svo með hann til baka.““

AFP

Borgarfulltrúarnir þrír voru að ræða við verkalýðsleiðtogann um hvernig hægt væri að styrkja pólitískt bakland rómanskra í kjördæmunum. 

Í yfirlýsingunni sem Martinez sendi á mánudag sagði hún: „Sem móðir, þá veit ég betur og mér þykir þetta leitt. Ég skammast mín.“

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, fagnaði ákvörðun hennar í gær. „Kynþáttahatur fær ekki að líðast í Kaliforníu.“

Eric Garcetti, borgarstjóri Los Angeles, sagði að Martinez hefði tekið rétta ákvörðun sem er í þágu borgarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert