Kona á þrítugsaldri var úrskurðuð látin eftir að hafa að öllum líkindum fallið af rafknúnu hlaupahjóli, eða rafskútu eins og þessi farartæki hafa verið nefnd á íslensku, í íbúðarhverfi skammt frá miðbæ Sandefjord í Suðaustur-Noregi í nótt.
Er þar um þriðja dauðsfall stjórnenda rafhlaupahjóla í Noregi að ræða, en hin fyrri urðu þegar 68 ára gamall maður féll af slíkum færleik í Bærum í júlí í fyrra og haustið 2020 þegar annar á fimmtugsaldri féll af hjóli sínu í Senja.
„Við vitum enn sem komið er ekki hvað gerðist. Við vitum bara að konan fannst í vegkantinum við hlið rafhlaupahjóls,“ segir Eskil Hagen Olsen, varðstjóri hjá lögreglunni í suðausturumdæminu, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Kveður hann lífgunartilraunir á staðnum engan árangur hafa borið og konan að lokum verið úrskurðuð látin á vettvangi.
Engin vitni voru að atburðinum og gengur lögregla, að sögn Olsens, út frá því að um slys hafi verið að ræða. Engu að síður mun tæknideild lögreglu rannsaka vettvanginn með tilliti til þess að saknæm háttsemi hafi hugsanlega átt sér stað.
„Við höfum engin vitni að því sem gerðist en ummerki á staðnum benda til þess að hún hafi ekið á eitthvað,“ segir varðstjórinn.