48 ár fyrir 1,3 tonn af hassi

Hluti hassins í nóvembersendingunni, samtals náði lögreglan 1,3 tonnum af …
Hluti hassins í nóvembersendingunni, samtals náði lögreglan 1,3 tonnum af hassi. Ljósmynd/Norska lögreglan

Héraðsdómur Telemark í Suðaustur-Noregi hefur dæmt fjóra menn í samtals 48 ára fangelsi fyrir innflutning á 1,3 tonnum af hassi, afrakstur lögregluaðgerðar sem gekk undir heitinu „Operasjon Bataljon“ og dró nafn sitt af einföldu götuheiti í bænum Skien (frb. Sje-en).

Það var laugardagssíðdegi nokkurt í nóvember 2020 sem óeinkennisklæddir lögreglumenn fylgdust með umferð kringum verkstæði í lagerhúsnæði á Kjørbekk í Skien. Nánar tiltekið við Bataljonvegen.

Vöruflutningabifreið með tengivagn og erlend skráningarnúmer kom akandi að húsnæðinu og ákváðu lögreglumenn á vettvangi þá að óska eftir liðsauka. Innan skamms kom fjöldi lögreglubifreiða á staðinn og fyrr en varði var einn stærsti hassfarmur í haldlagningarsögu norskrar lögreglu orðinn að veruleika, 698 kílógrömm.

1,9 milljarðar á götunni

„Þetta er eitt mesta magn af hassi sem norska lögreglan hefur nokkru sinni lagt hald á,“ sagði Odd Skei Kostveit, ákærufulltrúi lögreglunnar í suðausturumdæminu, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK á sínum tíma og bætti því við að áætlað götuverðmæti efnisins væri 140 milljónir norskra króna, jafnvirði 1,9 milljarða íslenskra króna.

Sama ár, í september, höfðu sömu aðilar flutt inn aðra stóra sendingu af hassi, 663 kílógrömm, sem ekið var með frá Svíþjóð til Noregs yfir Storlien-landamærastöðina í Meråker. Lögregla náði báðum sendingunum eftir að hafa hlerað síma og húsnæði innflytjendanna auk þess að koma földum myndavélum og GPS-sendum fyrir.

Dómarnir sem nú féllu í Héraðsdómi Telemark voru eftirfarandi:

34 ára gamall maður hlaut 16 ára fangelsi fyrir innflutning á samtals 1.361 kílógrammi af hassi. Sá var skipuleggjandi og aðalmaður að því leyti að hann hafði yfirumsjón með innflutningnum og útdeildi verkefnum meðal samstarfsmanna sinna.

54 ára gamall maður hlaut 12 ára fangelsi fyrir hlutdeild í innflutningi á 1.361 kílógrammi af hassi. Sá var bílstjóri.

27 ára gamall maður hlaut tíu ára fangelsi fyrir hlutdeild í innflutningi á 1.361 kílógrammi af hassi. Sá annaðist móttöku og dreifingu efnanna.

32 ára gamall maður hlaut tíu ára fangelsi fyrir hlutdeild í innflutningi á 663 kílógrömmum af hassi. Sá var aðstoðarmaður hinna.

Áfrýjanir í loftinu

Verjandi fyrsttalda mannsins segir málinu þegar hafa verið áfrýjað. „Við teljum að sönnunargagna málsins hafi verið aflað á ólögmætan hátt,“ segir verjandinn, Øyvind Bergøy Pedersen, við NRK.

Skjólstæðingur hans viðurkennir að honum hafi verið ætluð 30 kílógrömm af septembersendingunni, ekki meira. Þá hafi honum ekki verið kunnugt um sendinguna í nóvember.

Jon Anders Hasle er verjandi 32 ára gamla mannsins. „Hann neitar sök og er mjög ósammála dómsorði. Sumt af okkar málflutningi féllst dómurinn á en engu að síður íhugum við áfrýjun. Við ætlum þó fyrst að lesa dóminn ítarlega,“ segir Hasle.

Tollef Skobba, verjandi 27 ára gamla mannsins, kveðst íhuga áfrýjun. Skjólstæðingur hans hafi verið þess albúinn að fá dóm, en ekkert í nágrenni við tíu ár.

NRK hefur ekki náð tali af verjanda aldursforsetans í hópi dæmdu.

NRK

VG

Telemarksavisa (sagði fyrst frá, læst áskriftarsíða)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert