Búið verði að laga brúna fyrir júlí 2023

Gervihnattamynd sem tekin var af brúnni 12. október.
Gervihnattamynd sem tekin var af brúnni 12. október. AFP/Maxar Technologies

Rússnesk stjórnvöld hafa skipað verktökum að ljúka viðgerð á brúnni sem tengir saman Krímskaga og Rússland fyrir júlímánuð árið 2023.

Sprenging varð í flutningabíl á brúnni yfir Kertsj-sund síðasta laugardag sem leiddi til þess að þrír létust. Brúin, sem er 19 kílómetrar á lengd og jafnframt sú lengsta í Evrópu, hefur gegnt lykilhlutverki fyrir Rússland í stríðinu.

Vegna skemmda á brúnni geta þungir flutningabílar ekki farið yfir hana, heldur þarf nú bíða eftir ferju til þess að fara með birgðir inn í Úkraínu til rússneskra hersveita, ferli sem talið er að taki nokkra daga, að því er BBC greinir frá.

Aftur á móti er búið að opna fyrir lestarumferð að hluta.

Rússar hafa haldið því fram að úrkaínska leyniþjónustan hafi staðið á bak við sprenginguna, en Úkraínumenn hafa ekki lýst yfir ábyrgð á henni. Rússar hafa handtekið átta manns sem grunaðir eru um aðild að sprengingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert