„Ég myrti þau viljandi“

Lucy Letby á meðan hún starfaði enn á fæðingardeildinni árin …
Lucy Letby á meðan hún starfaði enn á fæðingardeildinni árin 2015 og '16. Henni er gefið að sök að hafa myrt þar sjö nýbura og reynt að myrða aðra tíu. Stjórnendur sjúkrahússins áttuðu sig ekki á alvarleika málsins í fyrstu en færðu Letby þó til í starfi og fengu henni skrifborðsstarf þar sem hún væri ekki í námunda við nýfædd börn. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Ég er ill,“ og „Ég myrti þau viljandi vegna þess að ég er ekki nógu góð,“ skrifaði hjúkrunarfræðingurinn Lucy Letby á miða sem fundust á heimili hennar og eru meðal gagna sem lögð hafa verið fyrir dómstól í Manchester þar sem aðalmeðferð í máli hjúkrunarfræðingsins stendur nú yfir.

Letby, sem er 32 ára gömul, sætir 22 liða ákæru þar sem henni er gefið að sök að hafa myrt sjö nýbura og reynt að myrða tíu til viðbótar er hún starfaði á fæðingardeild Countess of Chester-sjúkrahússins árin 2015 og 2016. Neitar hjúkrunarfræðingurinn staðfastlega sök þrátt fyrir skrif sín.

Ofangreint var ritað á límborna minnismiða, svokallaða „post-it“-miða, en fjöldi þeirra fannst á heimili hjúkrunarfræðingsins og hafði Letby ritað þar ýmsar vangaveltur, svo sem „Hvaða fullyrðingar hafa verið settar fram og hverjir hafa sett þær fram? Hafa viðkomandi skrifleg sönnunargögn máli sínu til stuðnings?“

Sýndi engin svipbrigði

Á sumum miðanna skrifar Letby um sakleysi sitt á meðan hún játar illt innræti á öðrum: „Ég hef ekki gert neitt rangt og þeir hafa engin sönnunargögn svo hvers vegna hef ég þurft að fela mig?“ og hins vegar „Ég er hryllilega ill manneskja,“ og „Ég er ill. Ég gerði þetta.“

Foreldrar sumra fórnarlambanna voru viðstaddir réttarhöldin, hlýddu á sóknarræðu saksóknara og sáu skrif Letby sem varpað var á mynd upp á vegg í réttarsalnum. Ákærða sýndi þar engin svipbrigði.

„Dömur mínar og herrar, í sem einföldustu máli er verkefni ykkar í þessu máli eftirfarandi: hvort hún framkvæmdi þessi skelfilegu verk. Sú ákvörðun er ykkar að taka eftir að þið hafið hlýtt á öll sönnunargögn málsins,“ sagði Nick Johnson saksóknari er hann ávarpaði kviðdóminn í málinu.

Sett í skrifborðsvinnu

Ben Myers, verjandi Letby, sagði hins vegar að hver sem byggi yfir örðu af mannlegum skilningi hlyti að líta á minnismiða ákærðu sem „örvæntingarfulla útrás ungrar og felmtri sleginnar konu sem hefur áttað sig á þeim ósköpum sem á hana eru borin“.

Stjórnendur sjúkrahússins áttuðu sig seint á því sem átti sér stað á fæðingardeildinni. Dauðsföllin voru þó tengd við Letby og hún þá flutt til í starfi og látin sinna skrifborðsvinnu þar sem hún komst ekki í návígi við nýbura. Höfðu stjórnendurnir þó samband við lögreglu sem hóf „langa og flókna“ rannsókn að sögn Johnsons saksóknara. Að lokum hafi verið ákveðið að handtaka hjúkrunarfræðinginn, en það var ekki fyrr en nokkrum árum eftir verknaðinn sem hún er grunuð um, 3. júlí 2018 var Lucy Letby handtekin grunuð um sjö manndráp og tíu tilraunir til manndráps.

BBC
The Guardian
The Leader
The Worcester News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert