Að minnsta kosti fimm létust í skotárás í Raleigh, höfuðborg bandaríska ríkisins Norður-Karólínu, þar á meðal lögreglumaður sem var ekki á vakt.
Búið er að handtaka þann sem er grunaður um ódæðið.
Mary-Ann Baldwin, borgarstjóri Raleigh, sagði að skotárásin hafi átt sér stað skammt frá Neuse River Greenway, sem er vinsæl göngu- og hjólaleið á svæðinu.
„Þetta er sorglegur dagur fyrir borgina Raleigh. Rétt eftir klukkan 17 í dag [í gær] voru margar manneskjur skotnar,“ sagði hún á blaðamannafundi.
Árásarmaðurinn, „ungur hvítur maður undir lögaldri“, var handtekinn í gærkvöldi. Ekki er vitað um hvað honum gekk til með skotárásinni.