Hver er dularfulli mótmælandinn?

Verkamenn sjást hér við Sitong-brúna í dag þar sem mótmælin …
Verkamenn sjást hér við Sitong-brúna í dag þar sem mótmælin fóru fram í gær. Mótmælandinn dularfulli var klæddur eins og verkamaður og virðist þannig hafa komist óséður í gegnum eftirlitið. AFP

Fólk reynir nú að komast að því hver það er sem bar ábyrgð á mótmælum í Kína þar sem Xi Jinping, forseti landsins, var gagnrýndur harðlega sem og kínversk stjórnvöld. Margir hafa hrósað dularfulla mótmælandanum á netinu fyrir hugrekkið enda mótmæli gegn stjórnvöldum fátíð í Kína þar sem hart er tekið á slíku athæfi. 

Mótmælandinn hengdi upp tvo stærðarinnar borða á Sitong-brúna sem er í Haidian-hverfi í höfuðborginni Beijing. Þar kallaði hann eftir því að bundinn yrði endi á núllstefnu stjórnvalda í Covid-málum og að Xi verði flæmdur á brott úr stóli forseta. 

AFP

Ríkisfjölmiðlar þegja

Á meðan kínverskir fjölmiðlar hafa þagað um atvikið þá hafa ljósmyndir og myndskeið frá mótmælunum, sem áttu sér stað í gær, farið sem eldur um sinu um netheima og á samfélagsmiðlum, að því er segir í umfjöllun breska útvarpsins. Kínversk stjórnvöld hafa brugðist hart við og loka á slíka miðla og dreifingu, m.a. á WeChat-spjallforritinu sem flestir Kínverjar nota. 

Mótmælin áttu sér stað á sama tíma og Kommúnistaflokkur landsins heldur sitt landsþing þar sem völd Xi verða fest í sessi þar sem hann mun hljóta umboð til að leiða flokkinn þriðja kjörtímabilið í röð.

Mótmælandinn virðist enn fremur hafa kveikt í bíldekkjum og þá heyrðist hann hrópa slagorð í gegnum gjallarhorn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert