Jeremy Hunt nýr fjármálaráðherra Breta

Jeremy Hunt, nýr fjármálaráðherra Bretlands.
Jeremy Hunt, nýr fjármálaráðherra Bretlands. AFP/Adrian Dennis

Liz Truss forsætisráðherra Bretlands hefur skipað Jeremy Hunt í embætti fjármálaráðherra. 

Hunt, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og utanríkisráðherra Bretlands, tekur við stöðunni af Kwasi Kwarteng sem var látinn taka poka sinn í morgun. BBC greinir frá. 

Kwarteng hafði gegnt stöðu fjármálaráðherra frá því í byrjun september. Aðeins einn hef­ur setið skem­ur á stóli fjár­málaráðherra í land­inu frá upp­hafi.

Sá var Iain Mac­leod, sem lést sök­um hjarta­áfalls eft­ir 30 daga í embætti árið 1970.

Sagði Kwarteng hafa tekið ákvörðunina

Í bréfi frá Truss, sem hefur verið birt á vef BBC, kemur fram að það hafi verið Kwarteng sem bað um að fá að stíga til hliðar. „Ég ber mikla virðingu fyrir þeirri ákvörðun sem þú hefur tekið í dag. Þú settir hag þjóðarinnar í fyrsta sæti,“ skrifaði forsætisráðherrann. Þá þakkaði hún jafnframt Kwarteng fyrir vinskap hans og stuðning.

Sérfræðingar telja þó að það hafi verið forsætisráðherrann sem tók ákvörðun um að láta Kwarteng fara. Kemur það m.a. fram í bréfi sem Kwarteng birti á Twitter-reikningi sínum fyrr í dag og hefst á orðunum:

„Kæri forsætisráðherra. Þú hefur beðið mig um að víkja úr embætti. Ég hef samþykkt.“ 

Hafi verið einn nánasti bandamaður hennar

Sérfræðingur BBC segir að ekki megi vanmeta mikilvægi ákvörðunar forsætisráðherrans um að víkja Kwarteng úr embætti enda hafi fyrrverandi fjármálaráðherrann verið einn nánasti bandamaður Truss eftir að hún komst til valda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert