Lítt Truss-vekjandi pólitík

Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, boðaði til blaðamannafundar í dag þar …
Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, boðaði til blaðamannafundar í dag þar sem hún greindi frá því að Kwarteng hefði verið látinn fara. AFP

Hveitibrauðsdagar Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, hafa verið þyrnum stráðir og ansi stuttir frá því hún tók við keflinu af forvera sínum í embætti, Boris Johnson. 

Í umfjöllun AFP-fréttaveitunnar kemur fram að, ef frá er talin 10 daga þjóðarsorg vegna andláts Elísabetar Bretlandsdrottningar, þá hafi Truss aðeins haft stjórn á sínum málum í um eina viku áður en hennar pólitíska líf tók kollsteypu, sem endaði með því að hún lét Kwasi Kw­arteng taka pokann sinn sem fjármálaráðherra í dag. 

„Þetta er geymsluþol salats,“ sagði í tímaritinu Economist í vikunni.

Farið er yfir feril Truss á stóli forsætisráðherra í umfjöllun AFP.

Tíminn útrunninn. Kwasi Kwarteng gengdi aðeins embætti fjármálaráðherra í 38 …
Tíminn útrunninn. Kwasi Kwarteng gengdi aðeins embætti fjármálaráðherra í 38 daga. AFP

5. september

Truss er kjörinn leiðtogi breska Íhaldsflokksins með 81.326 atkvæðum gegn 60.399 sem Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra í ríkisstjórn Borisar Johnsons, hlaut í kosningunni. Þar sem hún tók við sem leiðtogi flokksins þá tók hún einnig við embætti forsætisráðherra landsins. Hún naut aðeins stuðnings 0,2% breskra kjósenda og minnihluta flokksfélagar hennar á þingi. 

Daginn eftir var hún staðfest sem nýr forsætisráðherra eftir fund með drottningunni. 

Þrátt fyrir að hafa veikt umboð ákvað Truss að losa sig við alla stuðningsmenn Sunaks úr ríkisstjórninni og fékk Kwasi Kwarteng, sem var á sömu pólitísku línu og hún, til að taka við ríkisfjármálunum. 

8. september

Truss sviptir hulunni af kostnaðarsamri áætlun til að setja þak á orkureikninga breskra heimila, en það er hugsað sem viðbragð vegna innrásar Rússa í Úkraínu og áhrif stríðsins á orkuverð víða í Evrópu. 

Tilkynningin fellur þó fljótt í skuggann á andláti drottningarinnar sem setur alla starfsemi  stjórnvalda á ís í 10 daga. 

Breskt samfélag stöðvaðist eftir að þjóðarsorg var lýst yfir þar …
Breskt samfélag stöðvaðist eftir að þjóðarsorg var lýst yfir þar í landi eftir fráfall Elísabetar Bretadrottningar. AFP

23. september

Kwarteng kynnir „litla fjárlagafrumvarpið“ þar sem verðmiðinn á orkuáætluninni er kynnt, en hún kostaði 60 milljarða punda á sex mánaða tímabili, eða sem samsvarar um 9.700 milljarða kr. 

Hins vegar voru engar leiðir kynntar til að tryggja fjármögnun.

Í staðinn leggur Kwarteng til stórfellda lántöku til að greiða fyrir meiriháttar skattalækkanir, sem náðu einnig til þeirra ríkustu. Auk þess var hætt við að setja þak á bónusgreiðslur bankastarfsmanna. 

Truss og Kwarteng á meðan allt lék í lyndi. Öryggishjálmarnir …
Truss og Kwarteng á meðan allt lék í lyndi. Öryggishjálmarnir eflaust komið að góðum notum þegar þau heimsóttu nýverið Birmingham þar sem verið er að byggja rannsóknarsetur í heilbrigðisvísindum í borginni. AFP

Tilkynningin mætti mikilli gagnrýni þegar í stað og þótti ósanngjörn. Þetta hafði einnig mikil áhrif á fjármálamarkaðinn þar sem pundið féll í verði gagnvart Bandaríkjadal. 

Tveimur dögum síðar, sem var sunnudagur, hét Kwarteng að gera meira varðandi skattalækkanir. Daginn eftir hélt pundið áfram að falla þegar markaðir opnuðu aftur á mánudegi. 

Litlu fjárlögin voru kölluð „Kami-Kwasi“ í fjölmiðlum, sem er vísun kamikaze sjálfsmorðsárásir japanskra orrustuflugmanna á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Fjölmiðlar fóru jafnframt að greina frá spennu og átökum á bak við tjöldin á milli þeirra Kwarteng og Truss. Þá bárust fréttir af mikilli óánægju meðal þingmanna breska Íhaldsflokksins, þar á meðal annarra 
ráðherra. 

Pundið féll hressilega gagnvart dollaranum.
Pundið féll hressilega gagnvart dollaranum. AFP

28. september

Mikil ólga var á skuldabréfamarkaði í Bretlandi sem setti lífeyrissjóði í landinu í mikla hættu. Það endað með því að Seðlabanki Englands greip í taumana og kynnti tveggja vikna áætlun til að kaupa upp ríkisskuldabréf fyrir 65 milljarða punda til að koma á ró og stöðugleika. 

29. september

Í fylgiskönnun, sem var gerð á vegum YouGov, kom fram að Verkamannaflokkurinn væri með 33 prósentustiga forskot á Íhaldsflokkinn, sem er mesti munur á milli flokkanna frá því Tony Blair var leiðtogi Verkamannaflokksins á tíunda áratugi liðinnar aldar. 

Stóra planið sem gekk ekki upp.
Stóra planið sem gekk ekki upp. AFP

Aðrar kannanir bentu til þess að íhaldsmenn myndu fá mikinn skell í kosningum. Nokkrum klukkustundum áður en Kwarteng átti að halda áfram á landsfundi flokksins, þá hét hann því að halda áfram á sömu braut. Hvika hvergi. 

3. október

Kwarteng og Truss neyðast til að taka auðmýkjandi u-beygju í málinu sem allt ætlaði um koll að keyra á landsfundinum. Fyrirhugaðar áætlanir voru því settar í tætarann eftir næturviðræður. 

Í ræðu sinni þann 5. október hét Truss því að halda sig við áætlun sína um „vöxt, vöxt og aftur vöxt“, en henni tókst þó ekki að sannfæra efasemdarmenn innan flokksins og taugatrekktan fjármálamarkað.

Verð á ríkisskuldabréfum héldu áfram að hækka með tilheyrandi höggi fyrir bresk heimili þar sem húsnæðislán urðu sífellt dýrari. 

10. október

Kwarteng tilkynnir um enn aðra stefnubreytingu þegar hann segir frá því að hann hyggist kynna fjármálaáætlun auk óháðrar fjármálaspár 31. október, á hrekkjavöku, í staðinn fyrir að halda sig við seinni hluta nóvembermánaðar eins og upphaflega stóð til. 

Tveimur dögum síðar útilokar Truss frekari niðurskurð í ríkisfjármálum, jafnvel þótt að hún heiti því að taka ekki frekari u-beygjur varðandi aðrar skattalækkanir, sem dregur upp mynd af ríkisstjórn í algjörri ringulreið. 

14. október

Truss ákveður að láta Kwarteng taka pokann sinn eftir aðeins 38 daga í starfi. Það þykir gefa orðrómi um að flokkurinn sé að reyna að losa sig við Truss, byr undir báða vængi. 

Kwarteng kom efnahagsáætluninni til varnar í bréfi sem hann skrifaði til Truss. Hann heldur því staðfastlega fram að þetta væri eina rétta leiðin því „kyrrstaða er einfaldlega ekki valmöguleiki“. 

Jeremy Hunt er nýr fjármálaráðherra Bretlands.
Jeremy Hunt er nýr fjármálaráðherra Bretlands. AFP

Í dag greindi svo Truss frá því að Jeremy Hunt, sem er fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, væri arftaki Kwarteng í fjármálaráðuneytinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka