Minnst 22 látnir eftir sprengingu í námu

Alls voru 110 verkamenn að vinna ofan í námunni.
Alls voru 110 verkamenn að vinna ofan í námunni. AFP/Nilay Meyrem Comlek

Minnst 22 námuverkamenn eru látnir eftir að sprenging varð ofan í námu í bænum Amasra í Tyrklandi í dag. Suleyman Soylu, innanríkisráðherra Tyrklands, staðfesti að 49 manns væru enn fastir ofan í námunni á um 300 til 350 metra dýpi.

Alls voru 110 verkamenn að vinna ofan í námunni þegar sprengingin varð. Sumir komust út af sjálfsdáðum en öðrum var bjargað af björgunarsveitarmönnum. Átta manns sem lifðu sprenginguna af liggja á gjörgæsludeild á sjúkrahúsi.

Soylu sagði að 28 manns, sem annað hvort hafi tekist að komast út af sjálfsdáðum eða hafi verið bjargað, hafi hlotið mikla áverka. Er þetta talið vera eitt mannskæðasta iðnaðarslys landsins í mörg ár.

Tugir björgunarsveitarmanna eru að störfum og eru fleiri en 70 þeirra komnir um 250 metra ofan í námuna.

Yfir 70 björgunarsveitarmenn eru komnir um 250 metra ofan í …
Yfir 70 björgunarsveitarmenn eru komnir um 250 metra ofan í námuna. AFP/Ihlas News Agency

Hafi orðið vegna uppsöfnun metangass

Stéttarfélag námuverkamanna telur að uppsafnað metangas hafi valdið sprengingunni, en aðrir embættismenn segja ótímabært að skera endanlega úr um orsök hennar að svo stöddu.

Árið 2014 varð mannskæðasta iðnaðarslys Tyrklands þegar 301 verkamaður lést eftir sprengingu í námu í bænum Soma í vesturhluta landsins.

Gert er ráð fyrir að Recep Tayyip, forseti Tyrklands, fljúgi á slysstað á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert