Skvettu súpu á Sólblóm Van Gogh og límdu sig við vegg

Aðgerðarsinnarnir Phoebe Plummer og Anna Holland sjást hér fyrir neðan …
Aðgerðarsinnarnir Phoebe Plummer og Anna Holland sjást hér fyrir neðan Sólblómin. Þarna voru þær búnar að skvetta súpunni og líma hendurnar við vegginn. AFP

Aðgerðarsinnar á vegum samtakanna Just Stop Oil, eða Stöðvið olíuna, köstuðu tómatsúpu á málverkið Sólblómin eftir hollenska listamanninn Vincent van Gogh í National Gallery-listasafninu í London í dag. 

Fram kemur í umfjöllun breska blaðsins The Guardian að sjónarvottum hafi brugðið við athæfið, sem átti sér stað rétt eftir kl. 11 að staðaríma, og heyrðist fólk taka andköf auk þess sem einn hrópaði: „Guð minn almáttugur!“ Gler er yfir listaverkinu til að verja það. 

Aðgerðarsinnarnir, tvær ungar konur, klæddu sig úr jökkum sem þær voru í og þá kom í ljós að þær voru í stuttermabolum sem voru merktir samtökunum. Eftir að hafa skvett súpunni á Sólblómin límdu þær hendurnar á sér við vegg.

„Hvað er meira viðri, list eða líf,“ sagði hin 21 árs gamla Phoebe Plummer. Með henni var hin tvítuga Anna Holland. „Er þetta meira virði en matur? Meira virði en réttlæti? Hefur þú meiri áhyggjur af því að málverk njóti verndar fremur en jörðin og fólkið?“

Starfsfólk listasafnsins rýmdi svæðið fljótlega eftir atvikið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert