„Viltu vera svona grönn?“

Ida Elise Fleischer Edland ásamt þjálfara sínum og eiganda Mecca, …
Ida Elise Fleischer Edland ásamt þjálfara sínum og eiganda Mecca, Toni Reistad. Ida játar að fordómar gagnvart vöðvastæltum stúlkum séu töluverðir í Noregi, ýmist sé henni borið á brýn að nota stera eða þjást af átröskunum. Kveður hún þó íþróttafólk í hennar bransa uppteknara af hollu líferni og mataræði en víða annars staðar. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég er frá Holmestrand en hef búið hérna í Tønsberg í tvö ár,“ segir Ida Elise Fleischer Edland, fertugur þroskaþjálfi og nýbakaður meistari í bodyfitness, sem er eins konar kvenlegri útgáfa af gömlu sígildu vaxtarræktinni.

Ekki er nema um hálft annað ár síðan fastagestir líkamsræktarstöðvarinnar Mecca Tønsberg Muscle Club, sem er jú einmitt í Tønsberg, tóku að verða varir við nýjan viðskiptavin og daglegan gest þar í stöðinni. Var þar komin brosmild og ákaflega grannvaxin kona, fyrrverandi hlaupari og jógakennari, sem æfði eins og enginn væri morgundagurinn. Kvað að lokum svo rammt að, að varla var svo mætt í Mecca að Ida væri þar ekki fyrir.

Ida lengst til vinstri á Norðurlandamótinu í bodyfitness þaðan sem …
Ida lengst til vinstri á Norðurlandamótinu í bodyfitness þaðan sem hún sneri með silfur og brons eftir glæsilega frammistöðu. Ljósmynd/Aðsend

Áður en langt um leið var hún komin með Toni Reistad sem einkaþjálfara, reynslubolta í stálinu og nýbakaðan eiganda Mecca en Toni keypti stöðina um áramótin síðustu. Til að gera langa sögu stutta steig Ida í fyrsta sinn á svið í bodyfitness á Sandefjord Open-mótinu í haust, þar sem hún hampaði silfurverðlaunum í sínum flokki, og aðeins örfáum vikum síðar keppti hún í tveimur flokkum á Norðurlandameistaramótinu sem haldið var í norska bænum Hamar, skammt frá Ósló. Hreppti Ida þar silfur- og bronsverðlaun eftir að hafa tekið á járninu í innan við tvö ár.

Vildi ekki fara í SATS

En til að gera stutta sögu langa, hvernig stendur á því að fyrrverandi hlaupari og jógakennari vendir kvæði sínu svo rækilega í kross?

„Ég var búin að stunda hlaupin lengi þegar ég fór að finna fyrir eymslum í hnjám,“ segir Ida og dregur seiminn rækilega sem er eitt höfuðeinkenna þeirrar mállýsku sem töluð er í Vestfold, minnsta fylki Noregs áður en það sameinaðist nágrannafylkinu Telemark.

„Í fyrstu leiddi ég þetta bara hjá mér, bjóst við að þetta lagaðist með tímanum en verkirnir urðu bara verri. Að lokum var svo komið fyrir mér að þegar ég flutti til Tønsberg fyrir tveimur árum gat ég ekki hlaupið lengur,“ segir Ida frá. Þá voru góð ráð dýr.

„Ég hafði prófað eitthvað aðeins að lyfta lóðum áður og nú þurfti ég að skipta yfir í eitthvað alveg nýtt. Og ég vildi einhverja áskorun. Ég vildi ekki fara að lyfta í stöðvum eins og SATS [stærsta líkamsræktarstöðvakeðja Skandinavíu], ég vildi komast í alvörulyftingastöð,“ segir þessi dagfarsprúða smávaxna kona og hvessir augun á blaðamann svo honum verður ekki um sel.

Tekur enga frídaga

Þar með hóf hún æfingar í Mecca og keppnismennskan freistaði hennar strax á þessum nýja vettvangi. „Já, ég var bara „all in“ eftir að ég byrjaði hérna,“ segir Ida og brosir breitt. Toni hafði þá nýlega auglýst einkaþjálfun í stöðinni og boðið þjónustu sína fólki sem hug hefði á að keppa í vaxtarrækt og skyldum greinum og Ida beit á. Eftir það var ekki aftur snúið.

Flestir fastagestir í Mecca vita að Ida er þar öllum stundum. Manneskjan er einfaldlega alltaf í járninu. Hvers konar æfingakerfi styðst hún þá við?

„Ég er með fimmskipt kerfi, skipti efri líkamanum niður og svo skipti ég því sem er neðan mittis í tvennt þannig að framan á er annar hlutinn og aftan á hinn. Ég lyfti fimm daga í viku og svo stunda ég þolþjálfun tvo daga og þarf auðvitað að æfa pósur líka [skyldustellingar á sviðinu], ég tek eiginlega enga frídaga,“ segir Ida með bros á vör á meðan blaðamaður nagar sig í laumi í handarbakið með ellefta hvern dag sem frídag. Greinilega varla hálfdrættingur við hlið valkyrjunnar frá Holmestrand.

Ida sýnir hrikalega bakvöðva sína við æfingu í niðurtogi í …
Ida sýnir hrikalega bakvöðva sína við æfingu í niðurtogi í Mecca-æfingastöðinni í Tønsberg þar sem íturvaxið fólk tekur á stálinu við undirleik þungarokks og er margt hvert talið dæla í sig steralyfjum vegna þess að það skartar meiri vöðvamassa en meðalmanneskjur. Ljósmynd/Aðsend

Téð valkyrja dregur þó aðeins í land. „Jú jú, auðvitað hef ég álagið mismunandi, ég tek léttar vikur og þungar vikur, maður þarf alltaf að hlusta á skrokkinn. Þegar ég er „off season“ [ekki að æfa fyrir keppni] æfi ég kannski einn og hálfan tíma á dag en þegar ég er að búa mig undir keppni æfi ég allt að fimm tíma á dag,“ segir Ida og einhvern veginn hljómar það bara sjálfsagt þegar hún segir það, enda oft talin húsvörður í Mecca.

Kjúklingur, hrísgrjón og hafragrautur

Þegar hér er komið sögu í viðtalinu mætir Toni Reistad á vakt, eigandi stöðvarinnar og einkaþjálfari sem studdi Idu nánast upp í Norðurlandameistaratitil...nánast.

Á sama tíma færum við Ida okkur út í mataræði. Hvað borðar hún eiginlega fyrir öll þessi átök? „Ég borða eins hreina fæðu og ég get og ég get verið mjög vanaföst, ég get borðað það sama dag eftir dag, kjúkling, hrísgrjón, hafragraut og hrökkbrauð, mér finnst það ekkert mál,“ segir Ida með þessum þægilega léttleika sem einkennir allt hennar fas.

Telur hún þá allar hitaeiningar?

„Já, ég verð að gera það. Ég borða 1.800 hitaeiningar á dag núna þegar ég er ekki að æfa fyrir keppni og þá leyfi ég mér líka aðeins meira, ég tek alveg mína nammidaga, þú sérð nú bara hvað ég er feit núna,“ segir Ida og skellihlær. Blaðamaður sér þess engin merki. Hvað með þegar hún er að byggja sig upp fyrir keppni í bodyfitness?

Toni Reistad, gamalreynd „gymrotta“ og einkaþjálfari, tók við rekstri Mecca …
Toni Reistad, gamalreynd „gymrotta“ og einkaþjálfari, tók við rekstri Mecca um síðustu áramót. Hann skilaði Idu á verðlaunapall á hvorum tveggja mótunum, Sandefjord Open og Norðurlandameistaramótinu í bodyfitness. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Þá borða ég 3.000 hitaeiningar á dag og það er ekki auðvelt get ég sagt þér. Þá borða ég sex stórar máltíðir á dag og mér líður eins og það sé alltaf aðfangadagskvöld, ég er bara að springa alltaf,“ segir Ida og hlær dillandi hlátri.

Svíkst ekki um neitt

Er hér er komið sögu kveður einkaþjálfarinn Toni sér hljóðs og segir Idu nagla á heimsmælikvarða. „Ég get sagt þér það að þegar þessi stelpa kom hérna inn hafði ég aldrei séð eins granna konu. Hún varpaði varla af sér skugga,“ segir Toni og hlær við þegar hann minnist fyrstu skrefa hlauparans fyrrverandi í stálinu.

„Margir eru skíthræddir við að koma og æfa hérna bara vegna nafnsins á stöðinni, Tønsberg Muscle Club, hér er talið að allir viðskiptavinir séu hættulegir stórglæpamenn á sterum, en Ida mætti hérna, pínulítil, og fór að taka á því. Sjáðu bara hvar hún er núna. Ég hef líklega aldrei haft eins agaðan skjólstæðing í einkaþjálfun. Þessi kona sleppir aldrei æfingu, hún sleppir aldrei máltíð, hún svíkst ekki um neitt. Hún ætlar bara að taka þetta,“ segir Toni stoltur og má vera það eftir frábæran keppnisárangur Idu undir hans leiðsögn.

Hvernig skyldi Idu hafa verið innanbrjósts áður en hún steig á sviðið fyrsta sinni á Sandefjord Open-mótinu?

„Það var æðislegt en Jesús hvað ég var stressuð. Ég var alveg viss um að ég ætti ekki möguleika innan um hinar stelpurnar. En svo var það dálítið merkilegt að þegar nær leið mótinu fór ég að slaka á og mér leið bara vel,“ segir Ida.

Þjálfari og gallharður skjólstæðingur fagna innilega eftir glæsilegan árangur Idu …
Þjálfari og gallharður skjólstæðingur fagna innilega eftir glæsilegan árangur Idu á sviðinu, nýgræðings í bransanum sem er orðin eins og hvert annað húsgagn í Mecca. Ljósmynd/Aðsend

Í bodyfitness er ekki keppt í þyngdarflokkum eins og í vaxtarrækt heldur er skipt eftir hæð og aldri. „Ég hefði getað keppt í tveimur flokkum í Sandefjord en ég ákvað að láta einn duga,“ segir Ida og bætir því við að tilfinningin að standa á sviðinu hafi verið endurfæðingu líkust. Skyndilega ruku allar áhyggjur og ótti út í hafsauga, hennar eigin járnharði agi og leiðsögnin frá Toni skiluðu sér og er upp var staðið var Ida nálægt því að sigra í sínum flokki. Silfrið var hennar, frábær árangur byrjanda.

Hvert gramm taldi

„Við litum bara á Sandefjord sem generalprufu,“ skýtur Toni inn í, „NM í Hamar var auðvitað aðalmálið,“ og undir það tekur Ida. „Mér leið miklu betur á NM, þá vissi ég miklu betur hvað ég væri að fara út í,“ segir nýgræðingur sem keppti í tveimur flokkum á NM, rúmlega 120 keppenda móti, og sneri heim með silfur úr öðrum en brons úr hinum.

„Ef þú æfir eins og Ida þá uppskerðu eftir því,“ segir Toni enn fremur, „þegar hún kom hérna inn um dyrnar var hún ekki neitt neitt og ég man að ég hugsaði bara „þessi kona þarf mat“,“ og þau Ida hlæja í kór. „Við þurftum að nota allan þann tíma sem okkur bauðst, hvert gramm af vöðvamassa taldi hjá henni, hún var ekki að fara að keppa í bikini fitness þar sem öllu skiptir að vera grönn heldur bodyfitness þar sem vöðvamassi og skurður er málið,“ segir einkaþjálfarinn.

Ida hrikaleg á sviðinu. Hún játar að hafa verið dauðkvíðin …
Ida hrikaleg á sviðinu. Hún játar að hafa verið dauðkvíðin í fyrstu en frammistaðan reyndist framar björtustu vonum er upp var staðið. Ljósmynd/Aðsend

Við snúum talinu að alvarlegri hlutum eftir frábæra keppnismennsku hjá Idu. Hún ræddi nýlega við Kjersti Jergel-Johnsen, blaðamann Jarlsbergavis sem gefið er út í Holmestrand, og bar þar á góma fordóma í garð vaxtar- og annars konar líkamsræktarfólks. Er þetta eins áberandi núna og það var á níunda áratug síðustu aldar þegar allir sem gátu lyft hundrað kílógrömmum í bekkpressu voru stimplaðir steranotendur?

„Já, mjög margir halda að maður sé að svindla og taka stera, sérstaklega á svona harðkjarnastöðvum eins og Mecca, en það sem mér finnst líka vera orðið meira áberandi upp á síðkastið er að fólk heldur að maður þjáist af átröskunum og hvort tveggja finnst mér dálítið ósanngjarnt miðað við aðrar íþróttir,“ játar Ida hispurslaust.

„Mataræði fyrir vaxtarrækt er auðvitað átröskun,“ skýtur Toni inn í og þau Ida hlæja bæði.

„En samt í alvöru talað, ég fæ að heyra ýmsar óspennandi athugasemdir. Fólk spyr hvort ég sé með anorexíu og eftir að ég komst í keppnisform hér jókst þetta bara. Þið karlmennirnir fáið ekki að heyra svona, það þykir bara flott að þið séuð vöðvastæltir og enginn sakar ykkur um átraskanir,“ segir Ida og vottar í fyrsta sinn fyrir sárindum í rödd þessarar harðduglegu íþróttakonu.

Handrukkarar á sterum

„Ég verð að segja að mér finnst ungt fólk sem er að byrja að lyfta miklu heilbrigðara en margir í öðrum íþróttum, það er mjög upptekið af því sem það borðar og mér finnst virkilega gaman að sjá hvað margir eru orðnir meðvitaðir um hreint og gott fæði,“ segir Ida.

Ida hlaut silfurverðlaun í sínum flokki við frumraunina á Sandefjord …
Ida hlaut silfurverðlaun í sínum flokki við frumraunina á Sandefjord Open-mótinu enda farin að fá póstinn sinn sendan í Mecca í Tønsberg þar sem þessi íturvaxna og brosmilda keppniskona frá Holmestrand hefur heillað flesta æfingafélaga sína upp úr skónum. Ljósmynd/Aðsend

Hún játar að faðir hennar líti á líkamsræktarfólk sem vanheilbrigðan menningarkima. „„Viltu vera svona grönn?“ spurði hann mig,“ segir Ida og Toni tekur við.

„Ég hef verið í fjölda viðtala í fjölmiðlum. Það er útbreidd skoðun að þú getir ekki lyft lóðum án þess að vera á ólöglegum lyfjum. Ofan á þetta bætast sögur af handrukkurum og nú er svo komið að vöðvastælt fólk getur varla gengið um götur án þess að vera talið hættulegir stórglæpamenn,“ segir Toni og viðstaddir geta ekki á sér setið að glotta út í annað.

Um leið og blaðamaður þakkar fyrir sig og kveður Idu og Toni minnist hann frægra ummæla Flosa heitins Ólafssonar úr Löggulífi Þráins Bertelssonar frá 1985: „Tveir hættulegir stórglæpamenn dulbúnir sem gamlar konur. Og þeir stungu ykkur af á Skóda. Ætlist þið til að ég trúi þessu piltar?“

Kannski álíka líklegt og að allir sem lyfta lóðum og vinni til verðlauna fyrir það séu á sterum. Hver veit?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert