Að minnsta kosti fjórir íranskir fangar létust í eldsvoða í fangelsinu Evin í írönsku borginni Teheran í nótt. Þá eru aðrir 61 einstaklingar slasaðir.
Írönsk stjórnvöld segja eldinn hafa kviknað vegna átaka milli fanga. Réttindasamtök gefa lítið fyrir þær skýringar.
Á myndbandsupptökum sem birtar hafa verið á samfélagsmiðlum má heyra byssuskot og sprengingar koma innan úr fangelsinu.
Evin fangelsið er þekkt fyrir slæma meðferð á föngum sínum. Þá er það einnig þekkt fyrir að hýsa pólitíska fanga.
Fjölmargir mótmælendur hafa verið sendir í fangelsið síðustu vikur, en í um fjórar vikur hafa nú mikil átök geisað í Íran vegna dauða hinnar 22 ára gömlu Mahsa Amini.