Drónaárásir á Kænugarð í morgun

Sprenging í kjölfar drónaárásar í morgun.
Sprenging í kjölfar drónaárásar í morgun. AFP/Yasuyoshi Chiba

Rússar hófu drónaárásir á Kænugarð höfuðborg Úkraínu snemma í morgun samkvæmt upplýsingum frá úkraínsku forsetaskrifstofunni sem kallar nú eftir fleiri loftvarnakerfum frá Vesturlöndunum. 

Upplýsingar um mannfall liggja ekki fyrir að svo stöddu en borgarstjóri Kænugarðs segir tvo íbúa fasta undir rústum byggingar.

Fyrstu sprengingarnar heyrðust klukkan 6.35 að staðartíma en skömmu síðar fóru sírenur í gang víða um landið. Samkvæmt heimildum BBC heyrðust að minnsta kosti fimm sprengingar í morgun.

Vítalí Klitskó borgarstjóri Kænugarðs segir árásirnar hafa valdið eldsvoða og skemmt byggingar í hverfi miðsvæðis í borginni. Hvatti hann íbúa til að leita skjóls.

„Slökkviliðin eru að vinna í málinu. Nokkrar íbúðabyggingar urðu fyrir skemmdum. Sjúkraliðar eru á vettvangi,“ skrifaði borgarstjórinn á Telegram og bætti við að verið væri að safna upplýsingum um mannfall.

Sýnir örvæntingu

„Rússarnir halda að þetta muni hjálpa þeim en þetta sýnir örvæntingu þeirra,“ sagði Andrí Jermak starfsmannastjóri forsetans um árásirnar.

„Við þurfum fleiri loftvarnakerfi eins fljótt og auðið er. Meiri vopn til að verjast og til að eyðileggja óvininn,“ bætti hann við.

Vika er liðin frá því að Rússar hófu flugskeytaárásir á borgir víða í Úkraínu, þar á meðal höfuðborgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert