Hundruð lögregluþjóna í London hafa komist upp með fjölda brota í starfi ef marka má skýrslu þar sem farið er ofan í saumana á fjölda mála. Efst á listanum trónir lögregluþjónn sem gerst hefur sekur um ellefu brot er snúa að líkamsárásum, kynferðislegri áreitni og fjársvikum gagnvart samstarfsfólki.
„Þetta er hreint kollrak,“ segir Sir Mark Rowley lögreglustjóri við breska ríkisútvarpið BBC og kveðst felmtri sleginn yfir niðurstöðum skýrslunnar, við slíkt ástand megi lögreglan ekki búa. Í skýrslunni er greint frá fjölda annarra brota sem meðal annars tengjast hatursorðræðu og kynþáttahatri auk þess sem áður er getið.
Rowley hefur aðeins gegnt embætti um mánaðarskeið og segir skýrsluna afhjúpa brot lögregluþjóna gagnvart samstarfsfólki sínu sem mörg hver væru brottrekstrarsök, reyndar ætti að vera búið að láta nokkur hundruð manns fara að sögn Rowley.
Brotin takmarkast þó ekki við að bitna á öðrum í lögregluliðinu, í fyrrahaust var lögregluþjónninn Wayne Couzens dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að ræna, nauðga og að lokum myrða Söru Everard, stúlku sem var á leið heim til sín úr heimsókn til vinar í Suður-London 3. mars í fyrra. Voru borgarbúar slegnir óhug þegar ljóst varð hver framdi ódæðið.
Ekki vakti það minni athygli þegar systurnar Bibaa Henry og Nicole Smallman fundust myrtar í runna í Fryent-garðinum. Í kjölfarið hlutu tveir lögregluþjónar fangelsisdóma fyrir að deila myndum af líkum þeirra á WhatsApp þar sem þeir kölluðu þær „dauða fugla“. Mina Smallman, móðir systranna, segir BBC að hún fagni skýrslunni en vilji sjá breytingar í stað fleiri afsökunarbeiðna. „Við þurfum að gera okkur ljóst að hatursorðræða, kynþáttahatur og fyrirlitning í garð samkynhneigðra finnst innan allra stofnana, en slíkt má ekki viðgangast í lögreglunni,“ segir hún.
Fimmtungur þeirra lögregluþjóna sem kvartað hefur verið yfir, sá fimmtungur telur 1.809 manns, á meira en eina kvörtun yfir höfði sér og 500 af þeim hópi eiga sér þrjú til fimm mál frá árinu 2013 og þar til í dag.
Að sögn skýrsluhöfundar hefur innan við eitt prósent þeirra lögregluþjóna, sem eiga sér mörg mál, verið leyst frá störfum. Þar af er einn enn við störf sem sætir rannsókn vegna spillingar, umferðarlagabrota og þess að hafa ekki gætt öryggis borgaranna þótt hann væri á frívakt, „failure to safeguard while off duty“ eins og það kallast upp á ensku.