Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að loftárásir Rússa muni ekki brjóta úkraínsku þjóðina.
„Alla nótt og allan morgun hafa óvinirnir hrellt almenna borgara. Kamikaze-drónar og flugskeyti ráðast á alla Úkraínu. Óvinurinn getur ráðist á borgir okkar en hann mun ekki brjóta okkur,“ sagði forsetinn.
Flugskeytaárásir voru gerðar á margar borgir í Úkraínu í síðustu viku, þar á meðal höfuðborgina.
Þá heyrðust sprengingar í miðborg Kænugarðs, höfuðborg Úkraínu, í morgun en samkvæmt upplýsingum frá úkraínskum yfirvöldum höfðu Rússar sent svokallaða Kamikaze-dróna til höfuðborgarinnar.
Kamikaze-drónarnir eru einnota fyrirbæri sem eyðileggjast eftir að hafa gert árás á skotmarkið. Þeir draga nafn sitt af sjálfsvígssveitum japanska hersins í seinni heimsstyrjöldinni en Kamikaze-flugmenn fórnuðu sér með því að fljúga á skotmörk andstæðinga sinna.
Vítalí Klitskó, borgarstjóri Kænugarðs, segir árásirnar í morgun hafa valdið eldsvoða og skemmt byggingar í hverfi miðsvæðis í borginni. Hvatti hann íbúa til að leita skjóls.
Þá séu tveir íbúar fastir undir rústum byggingar.