Lokað á flugumferð vegna dróna

Flugstöðvarbygging Sola-flugvallarins við Stavanger.
Flugstöðvarbygging Sola-flugvallarins við Stavanger. Ljósmynd/Wikipedia.org/Jarvin

Flugumferðarstjórnendur í Noregi gripu til þess ráðs að loka fyrir alla flugumferð við flugvellina í Stavanger og Haugesund í gær eftir að flugmenn farþegaflugvélar sáu til dróna í um það bil 4,5 til sex kílómetra hæð á flugumferðarstjórnarsvæði Karmøy og Sola í Rogaland-fylki.

Staðfesti lögreglan í vesturumdæminu við norska ríkisútvarpið NRK í gær að brugðið hefði verið á þetta ráð í öryggisskyni. „Það voru flugmenn sem sáu til drónans, við sáum hann ekki,“ segir Irene Ragnhildstveit varðstjóri í samtali við NRK.

Avinor, rekstraraðili norskra flugvalla, skrifaði Twitter-síðu sína klukkan 21:41 að norskum tíma í gær, 19:41 á Íslandi, að flugumferð væri komin í eðlilegt horf á nýjan leik. „Við mátum stöðuna þá þannig að óhætt væri að opna á nýjan leik. Hvort náðst hafi til drónans verður lögreglan að tjá sig um,“ segir Harald Kvam, talsmaður Avinor, við NRK.

Þykir mjög miður

Samkvæmt norskum lögum er bannað að fljúga drónum í innan við fimm kílómetra fjarlægð frá flugvöllum. „Það er í höndum hvers flugstjóra að ákveða hvort hringsólað skuli yfir flugvelli eða snúið við þegar svona lagað kemur upp,“ segir Kvam. „Okkur þykir þetta mjög leitt en öryggið er í fyrsta sætinu þegar við vitum ekki hvert dróninn stefnir. Það er ástæða fyrir því að drónar eru bannaðir í fimm kílómetra radíus,“ heldur hann áfram.

Fjölda brottfara frá flugvellinum í Stavanger, sem reyndar er þó í nágrannasveitarfélaginu Sola, var aflýst og öðrum seinkað að sögn fréttamanns NRK sem staddur var á vellinum í gærkvöldi. Að sögn NTB-fréttastofunnar fer atvikið í flokk grunsamlegs drónaflugs í og við Noreg síðustu vikur, en þar á meðal má nefna dróna sem tvívegis sáust í nágrenni Kårstø-gasvinnslustöðvarinnar í Tysvær í Rogaland nýlega.

Fæstum drónum kleift að ná slíkri hæð

Anders Martinsen, formaður UAS Norway, samtaka drónaeigenda í landinu, segir engan veginn hægt að slá því föstu að hluturinn sem sást hafi verið dróni. „Hér er mikilvægt að undirstrika að þessi hlutur sást á þeim tíma sólarhringsins að erfitt er að segja til um það með vissu hvað þetta var og auk þess var hluturinn aðeins á meintu flugstjórnarsvæði,“ segir Martinsen og vísar til alþjóðlegra skýrslna um svipuð fyrirbæri þar sem því hafi verið slegið föstu að um önnur fyrirbæri en dróna hafi verið að ræða auk þess sem birtuskilyrði hafi oftar en ekki villt tilkynnendum sýn.

Bendir formaðurinn auk þess á að drónaflug í svo mikilli hæð, 4,5 til sex kílómetrum, sé ákaflega óvenjulegt. „Það verður að teljast mjög óvenjulegt og fæstum drónum er kleift að ná slíkri hæð,“ segir Martinsen.

NRK

VG

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka